Vaxandi andstaða við inngöngu í ESB

AFP

Vaxandi andstaða er við inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar MMR. Þannig hefur andstaðan aukist um 7,2 prósentustig miðað við sambærilega könnun í lok september og stuðningur við inngöngu hefur á sama tíma dregist saman um 7,3 prósentustig.

Skoðanakönnunin nú sýnir 57,8% andvíg inngöngu í Evrópusambandið miðað við 50,6% í lok september. 20,9% eru hlynnt inngöngu í sambandið nú samanborið við 28,2% í september. Færri eru hlynntir inngöngu nú en þeir sem ekki taka afstöðu með eða á móti en þeir eru 21,3%.

Af þeim sem andvígir eru inngöngu í Evrópusambandið eru 38,1% mjög andvígir og 19,7% frekar andvígir. 13% eru frekar hlynnt inngöngu í sambandið og 7,9% mjög hlynnt henni.

Til samanburðar voru 31,8% mjög andvíg inngöngu í Evrópusambandið í september, 18,7% frekar andvíg, 16,8% frekar hlynnt inngöngu og 11,4% mjög hlynnt henni.

Ef aðeins er miðað við þá sem taka afstöðu með eða á móti inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt skoðanakönnuninni nú eru 73,4% andvíg inngöngu í sambandið en 26,6% hlynnt henni.

Skoðanakönnun MMR var gerð dagana 7.-14. nóvember og var heildarfjöldi svarenda 904 einstaklingar, 18 ára og eldri. Spurt var: Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að Ísland gangi í Evrópusambandið (ESB)? Samtals tóku 87,8% afstöðu til spurningarinnar.

Meirihluti hefur verið andvígur inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt öllum skoðanakönnunum sem birtar hafa verið hér á landi frá því sumarið 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert