Viðræðurnar hefjast í fyrramálið

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, þegar hún kom á fund …
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, þegar hún kom á fund forsetans á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, ætlar að byrja að ræða við forystumenn annarra flokka strax í fyrramálið en óvíst er hvort að hún nái að hitta þá alla á morgun. Fjölflokkastjórn frá vinstri yfir miðjuna er enn fyrsti kostur að hennar mati og segist hún þurfa að nýta tímann vel.

Flókið hefur reynst að raða saman fundadagskrá á morgun og segist Katrín í samtali við Mbl.is ekki viss um að hún nái að ræða við fulltrúa allra flokka þá. Fyrsti fundur verður með Loga Má Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar kl. 9:30. Þá segir hún fulltrúa Bjartrar framtíðar og Viðreisnar ætla að koma saman til fundar við hana og fundur með Framsóknarflokknum hafi einnig verið staðfestur.

„Lengra er ég ekki komin. Ég byrja á morgun og svo sjáum við hvernig þetta klárast,“ segir Katrín sem fékk stjórnarmyndunarumboðið frá Guðna Th. Jóhannessyni forseta í dag. Bað forsetinn Katrínu um að hún gæfi sér skýrslu um gang viðræðnanna á mánudag eða þriðjudag.

„Það er ekki mikill tími til stefnu. Þetta snerist auðvitað svolítið um tímann. Eigum við ekki bara að sjá hvernig þessi tími reynist. Það verður allavegana að nýta hann vel,“ segir hún.

Þingflokkur Vinstri grænna fundaði í dag og segir Katrín hann hafa notað tímann til að setja niður sína sýn og áherslur fyrir viðræðurnar sem hann hafi ekki gert með formlegum hætti þar til nú.

„Það er svona okkar fyrsti kostur,“ segir Katrín spurð að því hvort hún stefni enn á fjölflokkastjórn frá vinstri yfir miðjuna eins og hún hefur margoft lýst áður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert