„Hreinskipt og gott samtal“

Katrín, Oddný og Logi Már við upphaf fundarins.
Katrín, Oddný og Logi Már við upphaf fundarins. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta gekk ágætlega. Það var hreinskipt og gott samtal á milli okkar,“ sagði Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, eftir fund sem hann og Oddný G. Harðardóttir, fyrrverandi formaður flokksins, áttu með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, í Alþingishúsinu.

Fundurinn stóð yfir í um eina og hálfa klukkustund. 

„Við fórum yfir sviðið, hvort það væri samhljómur og hvar eitthvað gæti borið á milli. Við komumst svo sem ekkert óvænt að því að það eru samstarfsmöguleikar á milli þessara tveggja flokka. En það eru fleiri flokkar og þar geta komið upp flækjur,“ sagði Logi.

Ræddu ESB og sjávarútveginn

Spurður út í Evrópumálin sagði hann að flokkarnir væru sammála um að það ætti að virða það sem búið er að lofa þjóðinni varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um samningaviðræður við ESB.

Að sögn Loga Más ræddu þau málin sem þau telja mikilvægust á næsta kjörtímabili, eða velferðarmál, heilbrigðismál, menntamál, leiðir til að auka jöfnuð á meðal almennings og leiðir til þess að fjármagna það.

Hvað sjávarútveginn varðar sagði hann flokkana vera sammála um að eðlilegt sé að þjóðin njóti meiri arðs að auðlindum. „Það kunna svo að vera skiptar skoðanir um hvaða leiðir á að nota til að ná því.“

Fjölflokkastjórn ekki vandamál

Logi Már segir raunhæft að mynda fjölflokkastjórn, eins og Katrín hefur rætt um. „Mér finnst það ekki hljóma sem neitt vandamál ef menn geta komið heiðarlega fram og náð saman um mál. Ég hef séð risastóra flokka með nokkra flokka innbyrðis í þingflokknum, þannig að það geta verið flækjur þar líka. Ef við erum heiðarleg og umburðarlynd getum við alveg landað skemmtilegum möguleika.“

Skilur ekki hræðslu í garð Pírata

Rætt hefur verið um óvissu annarra flokka varðandi samstarf við Pírata. Logi segir að sá flokkur hafi ekki verið ræddur á fundinum. „Ég hef aldrei skilið þessa hræðslu til Pírata. Mér finnst þetta skemmtilegur hópur og hef fulla trú á að þeir munu af fullri ábyrgð ganga inn í stjórn muni þeir axla hana,“ segir Einar.

Oddný betur að sér í mjög mörgu

Oddný G. Harðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, var honum til halds og trausts á fundinum. „Oddný er auðvitað okkar reyndi þingmaður og fyrrverandi ráðherra og er auðvitað miklu betur að sér í mjög mörgu sem þarna fór fram heldur en ég nokkurn tímann. Ég taldi það augljóst að það myndi bæta heilmiklu við að hafa hana með.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert