Telur að fimm flokka stjórn gæti náðst

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Árni Sæberg

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir mjög erfitt að átta sig á hvort Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, muni takast að mynda fimm flokka stjórn.

„Það verður reynt til þrautar með þetta en það er mjög erfitt að átta sig á því hvort það gengur. Ég held að það gæti alveg tekist,“ segir Grétar Þór.

„Svo verður maður að meta hvernig samsetningin er, hvernig málefnasamningurinn lítur út og hvar ásteytingarsteinarnir eru, ef maður ætlar að spá því hversu langlíf hún verður.“

Hálf þjóðin vildi Katrínu sem forseta

Spurður hvort Katrín sé rétta manneskjan til að leiða stjórnina kveðst Grétar Þór ekki hafa heyrt neinar raddir sem draga hana í efa. „Það er bratt ef menn ætla fyrirfram að efast um hana þegar hálf þjóðin vildi fá hana sem forseta fyrir ekki löngu síðan.“

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði.

Rökrétt skref

Að mati Grétars er það rökrétt skref hjá Katrínu að reyna að mynda fimm flokka stjórn eftir það sem á undan er gengið. „Það er rökrétt að Vinstri græn með stjórnarmyndunarumboð horfi til stjórnar sem er frekar vinstra megin, það þarf ekkert að koma á óvart. Hvort það tekst er annar handleggur en það er ákveðin breidd á þessari stjórn,“ segir hann og nefnir að hún virðist vera sett upp sem umbótastjórn án fráfarandi stjórnarflokka.

Viðreisn og Björt framtíð staðið fast á sínu 

Hann bætir við að þótt menn virðist vera tiltölulega jákvæðir fyrirfram þá standi menn á sínum málum. Því verður fróðlegt að sjá hvernig viðræðurnar ganga. „ Við sjáum hvernig Viðreisn og Björt framtíð hafa staðið fast á sínu gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Ég á ekkert von á því að þeir fari að slaka á sínum áherslum í þessa áttina heldur.“

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni er vonsvikinn

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, nefndi eftir fund sinn með Katrínu í gær að þriggja flokka stjórn væri mun betri kostur en fimm flokka.

Frétt mbl.is: Líst afleitlega á fimm flokka stjórn

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins eftir fund sinn með Katrínu Jakobsdóttur.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins eftir fund sinn með Katrínu Jakobsdóttur. mbl.is/Golli

Grétar segir slíka stjórn tölfræðilega vera inni í myndinni og Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti þá að vera inni í henni. „Það þarf ekki að koma á óvart að hann [Bjarni]  vísi til þess. Auðvitað er hann vonsvikinn yfir því að tilraunir hans hafi ekki tekist, alla vega enn sem komið er. Sigurður Ingi, formaður Framsóknarflokksins, nálgast þetta heldur meira diplómatískt en þeir tveir virðast vera utan við allar hugmyndir, alla vega í bili.“

Birgitta Jónsdóttir eftir fundinn með Katrínu Jakobsdóttur. Smári McCarthy ræðir …
Birgitta Jónsdóttir eftir fundinn með Katrínu Jakobsdóttur. Smári McCarthy ræðir í bakgrunni við fjölmiðla. mbl.is/Golli

Ekki algjörir græningjar

Sigurður Ingi dró stórlega í efa að fimm flokka stjórn gæti starfað saman og nefndi meðal annars reynsluleysi þeirra þingmanna sem í henni yrðu.

Frétt mbl.is: Framsókn efast um fimm flokka stjórn

Grétar segir að vissulega sé óreynt fólk innan um á Alþingi. Hann nefnir samt að hjá Pírötum sé fólk með reynslu. „Ef helmingurinn af þingflokknum er með meiri eða minni þingreynslu er ekki hægt að afgreiða þetta sem algjöra græningja. Mér finnst dálítið langt seilst þar og gert svolítið lítið úr Pírötum hvað það varðar. Menn virðast vera varkárir þegar þeir eru annars vegar," segir hann.

„En talandi um reynslulítið fólk þá er hægt að minna fólk á að árið 1991 stökk Davíð Oddsson inn á þing og beint í forsætisráðuneytið, án þess að hafa nokkurn tímann verið á þingi, þannig að reynsluleysið hefur ekki alltaf flækst fyrir mönnum,“ greinir Grétar frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert