220 stunda nám vegna fasteignasölu

Smára- og Lindahverfið í Kópavogi.
Smára- og Lindahverfið í Kópavogi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Um 220 manns stunda nám til löggildingar í fasteignasölu hér á landi. Nemarnir eru í þremur hópum en námið tekur tvö ár á háskólastigi.

Ný lög um sölu fasteigna tóku gildi um mitt síðasta ár. Tilgangurinn var að tryggja öryggi kaupenda og seljenda í fasteignaviðskiptum og um leið gera skýrari kröfur til fasteignasala að þeir sinni sjálfir þeim störfum sem hið opinbera hefur veitt þeim löggildingu til að sinna.

Frétt mbl.is: Hundruð starfa þurrkuð út

Margir með nemaheimild

Að sögn Grétars Jónassonar, framkvæmdastjóra Félags fasteignasala, eru margir af þeim sem störfuðu áður í greininni án menntunar í hópnum sem stundar nám til löggildingar og vinna þeir að því að afla sér réttinda til að geta starfað í faginu. Margir þeirra starfi samhliða náminu á fasteignasölum með svokallaða nemaheimild sem veitir þeim tilteknar heimildir til að aðstoða fasteignasala við tiltekin störf milligöngunnar.

Breiðholt í Reykjavík.
Breiðholt í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Markmiðin að stóru leyti náðst

Spurður út í reynsluna af nýju lögunum um sölu fasteigna telur Grétar að þau markmið sem stefnt var að hafi að stóru leyti náðst eða eru á réttri leið, meðal annars með því að margir sem unnu í greininni án menntunar vinni nú hörðum höndum að afla sér menntunar sem fasteignasalar.

„Þetta var einmitt eitt af því sem stefnt var að með nýju lögunum að árétta það og tryggja að neytendur í almennt stærstu viðskiptum á lífsleiðinni fái notið þjónustu og ráðgjafar þeirra sem hafa nauðsynlega menntun og reynslu að sinna þessum störfum. Með þessu er sköpuð festa og öryggi sem ekki var næg áður,“ segir Grétar.

400 löggiltir fasteignasalar

Hann segir að fjöldi fasteignasala á síðustu árum hafi verið í kringum 250, auk þess sem stór hópur sölufólks hefur verið til hliðar, eða á bilinu 400 til 600 manns. Í dag eru um 400 löggiltir fasteignasalar á landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert