Bæta við leitarmönnum frá Reykjavík

Björgunarsveitarmaður leitar að rjúpnaskyttunni á Héraði í nótt.
Björgunarsveitarmaður leitar að rjúpnaskyttunni á Héraði í nótt. ljósmynd/Landsbjörg

Til stendur að flytja björgunarsveitarmenn frá Reykjavík flugleiðis austur á Hérað til að aðstoða við leit að rjúpnaveiðimanni sem hefur staðið yfir í alla nótt. Þyrla Landhelgisgæslunnar er í viðbragðsstöðu en hún hefur ekki komist á loft til að aðstoða við leitina vegna veðurs.

Rjúpnaskytta á fertugsaldri skilaði sér ekki til hóps félaga sinna í gær og voru björgunarsveitir þá kallaðar út til að leita að manninum. Alls hafa 210 björgunarsveitarmenn allt frá Eyjafirði suður í Öræfasveit leitað að manninum í nótt og morgun að sögn Þorsteins G. Gunnarssonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

„Færið er erfitt þarna upp frá. Leitarskilyrði eru erfið. Menn komast varla um þarna öðruvísi en að vera á þrúgum eða gönguskíðum. Það er mikill snjór og hann er erfiður,“ segir hann og bætir við að leitarsvæðið sé stórt.

Frétt Mbl.is: Leita enn að rjúpnaskyttunni

Éljagangur og hvasst er enn á svæðinu en leitað er fyrir ofan sumarhúsabyggð við Einarsstaði og yfir í Fagradal að sögn Þorsteins. Af þeim sökum hefur þyrla Landhelgisgæslunnar ekki getað aðstoðað við leitina. Hún var hins vegar notuð til þess að flytja leitarmenn með sporhunda á svæðið í gærkvöldi. Ekki er vitað hvenær þyrlan kemst á loft.

„Það er verið að undirbúa með morgninum að flytja leitarfólk flugleiðis frá Reykjavík,“ segir Þorsteinn, bæði til að fjölga leitarmönnum og til að leysa þá af hólmi sem hafa leitað í nótt og morgun.

Hundrað og fimm björgunarsveitarmenn eru nú við leit en fleiri sem leituðu í nótt komu niður til hvíldar um miðja nótt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert