Starfsmenn Gamma í mál við Björn

Björn Steinbekk.
Björn Steinbekk. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Gam Management ráðgjöf ehf. hefur stefnt Birni Steinbekk vegna miðasölumálsins svokallaða, að því er fram kemur á vef RÚV. Málið verður tekið fyrir á þriðjudag, hafi þeir miðar sem félagið keypti ekki verið endurgreiddir, að sögn Hauks Arnar Birgissonar, sem fer með málið fyrir Gam Management ráðgjöf, sem er í eigu forstjóra og nokkurra starfsmanna fjárfestingafélagsins Gamma.

Miðasölumálið kom upp á EM í sumar, þegar Björn afhenti ekki miða sem fjöldi fólks hafði keypt af honum á leik Íslands og Frakklands í 8 liða úrslitum mótsins.

mbl.is hefur fjallað ítarlega um málið og greindi m.a. frá því í október sl. að Kristján Atli Baldursson, eigandi Netmidi.is, hefði enn ekki fengið endurgreiddar þær 5,2 milljónir króna sem Björn skuldaði honum vegna miða sem ekki fengust afhentir.

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður fer með mál tveggja einstaklinga sem keyptu miða af Birni, en hann sagði í samtali við fréttastofu RÚV í kvöld að engar greiðslur hefðu borist vegna þeirra miða. Sagðist hann bíða niðurstöðu rannsóknar lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert