Sérstakur stuðningur tekur við af húsaleigubótum

Fleiri íbúar félagsbústaða fá greiddar sérstakar húsaleigubætur og í lengri …
Fleiri íbúar félagsbústaða fá greiddar sérstakar húsaleigubætur og í lengri tíma, en þeir sem leigja á almenna markaðinum. mbl.is/Golli

Reglur um sérstakar húsaleigubætur falla úr gildi hjá Reykjavíkurborg 1. janúar á næsta ári og við taka þá reglur um sérstakan húsnæðisstuðning, sem samþykktar voru á fundi borgarráðs í síðustu viku.  Samkvæmt ákvæði í nýju reglunum munu umsóknir um sérstakar húsaleigubætur halda gildi sínu, en þeir sem eiga samþykkta umsókn um sérstakar húsaleigubætur verða þó kallaðir í viðtal á árinu og þurfa þá að leggja fram umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning samkvæmt nýju reglunum og kannað verður hvort þeir uppfylla skilyrði nýju reglnanna.

Þetta kemur fram í svörum Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn mbl.is um sérstakar húsaleigubætur. Nýju reglurnar hafa enn ekki verið kynntar opinberlega, en verða birtar á vef borgarinnar á næstunni og liggur því ekki fyrir hvort þær muni þrengja að rétti þeirra sem nú fá greiddar bætur.

Frétt mbl.is: Borgin synjar íbúum Brynju enn um bætur

Mbl.is greindi frá því fyrir nokkru að leigj­end­ur hjá Brynju, hús­sjóðs Öryrkja­banda­lags­ins, fengju ekki greidd­ar sér­stak­ar húsa­leigu­bæt­ur frá Reykja­vík­ur­borg þrátt fyr­ir að Hæstirétt­ur hefði í sum­ar úr­sk­urðað að borg­inni væri óheim­ilt að synja leigj­end­um Brynju um bæt­urn­ar.

Endalausar girðingar

„Það virðist vera sem svo að það sé verið að búa til girðing­ar enda­laust gagn­vart þess­um hópi,“ sagði Björn Arn­ar Magnús­son, fram­kvæmda­stjóri hús­sjóðs Brynju, þá í samtali við mbl.is og kvað synj­unina óneit­an­lega valda fólki  von­brigðum.  

Íbúunum var flestum synjað um sér­stak­ar húsa­leigu­bæt­ur á grund­velli d-liðar 4. grein­ar sömu reglu­gerðar og Hæstirétt­ur úr­sk­urðaði um í sum­ar. Sú grein kveður á um að um­sækj­end­ur verði að skora að lág­marki fjög­ur stig á þeim hluta matsviðmiðs reglu­gerðar­inn­ar sem tek­ur til fé­lags­legra aðstæðna og að tvö stig­anna verði að vera til­kom­in vegna hús­næðisaðstöðu um­sækj­anda. Húsnæðisaðstaðan verði að telj­ast annaðhvort veru­leg erfið eða að um­sækj­anda sé vart mögu­legt að bíða eft­ir hús­næði.

Velferðarsvið segir borgina meta húsnæðisaðstæður „ verulega erfiðar,“ þ.e. til tveggja stiga samkvæmt matsviðmiði, „ef minna en sex mánuðir eru eftir af leigusamningi, húsnæði er heilsuspillandi eða ef um er að ræða búsetu á áfangaheimili sem þarf að rýma innan tíðar. Sé umsækjandi heimilislaus er húsnæðisaðstaða metin til þriggja stiga, þ.e. vart mögulegt að bíða eftir húsnæði,“ að því er segir í skriflegu svari.

Staðan metin þegar umsókn er lögð fram

Björn Arnar sagði flesta þeirra sem fengju húsnæði hjá Brynju yfirleitt vera á götunni þegar þeir fengju úthlutað. „Þeir vísa hins veg­ar til þess að þar sem fólkið er komið í hús­næði hjá okk­ur, þá sé það ekki hús­næðis­laust. Ég veit hins veg­ar ekki hvernig menn fara að þegar þeir sækja um hús­næðis­bæt­ur á al­menn­um leigu­markaði, sækja þeir þá um bæt­urn­ar áður en þeir fá leigt?“ spurði hann þá.

Í svörum frá Velferðarsviði segir að staða umsækjenda sé metin þegar umsókn er lögð fram og að ekki fari fram endurmat þegar umsækjandi er kominn í húsnæði. Velferðarsvið meti hins vegar húsnæðisaðstöðu íbúa Brynju sambærilega húsnæðisaðstöðu þeirra sem búa í íbúðum á vegum Félagsbústaða hf.

Hafi umsókn um sérstakar húsaleigubætur verið samþykkt áður en umsækjandi flytur inn í íbúð, hvort sem um er að ræða íbúð á almennum markaði, á vegum Félagsbústaða hf. eða á vegum félagasamtaka, þá haldi  umsækjandi áfram að fá greiddar sérstakar húsaleigubætur og þetta sé gert í ljósi dóms Hæstaréttar nú í sumar.

Fleiri íbúar Félagsbústaða fá greiddar bæturnar og í lengri tíma

Mun fleiri úr hópi þeirra sem þiggja sérstakar húsaleigubætur búa í húsnæði Félagsbústaða en á almennum leigumarkaði. Í fyrra voru 1.219 á almennum leigumarkaði sem fengu sérstakar húsaleigubætur og 2.212 í húsnæði Félagsbústaða. Í ár eru tölurnar 1.140 á móti 2.238.  Þeir sem búa í húsnæði Félagsbústaða fá auk þess greiddar sérstakar húsaleigubætur í töluvert lengri tíma, en þeir sem eru á almennum leigumarkaði – eða í 52 mánuði á móti 30 mánuðum.

Í svörum Velferðarsviðs segir að samkvæmt núgildandi reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavíkur þá sé einungis um að ræða eina umsókn vegna félagslegs leiguhúsnæðis og sérstakra húsaleigubóta. Þeir sem hafi fengið úthlutað húsnæði á vegum Félagsbústaða fái því  greiddar sérstakar húsaleigubætur á grundvelli sömu umsóknar. Þeir geti því ekki sótt um sérstakar húsaleigubætur eftir að hafa fengið úthlutað húsnæði á vegum Félagsbústaða.

Frétt mbl.is: Óheimilt að synja íbúa um bætur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert