Gott hljóð í fólki en ekkert fast í hendi

Formenn og forsvarsmenn flokkanna í stjórnarmyndunarviðræðunum.
Formenn og forsvarsmenn flokkanna í stjórnarmyndunarviðræðunum. Ófeigur Lýðsson

Fundum í tengslum við stjórnarmyndunarviðræðum er lokið. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að gott hljóð sé í fólki eftir daginn. Mestur samhljómur sé um úrbætur á heilbrigðiskerfinu en helsti ásteytingarsteinninn snúi að skattamálum og sjávarútvegsmálum. 

Unnið var í fjórum málefnahópum. „Það er ekkert fast í hendi eftir daginn, en gott hljóð í fólki og mikil vinna farin af stað,“ segir Katrín. Einn hópur ræðir efnahagsmál, annar heilbrigðismál og menntamál, sá þriðji um atvinnu og umhverfismál og fjórði hópurinn um stjórnarskrá, jafnréttismál, alþjóðamál og fleira.  

Helst tekist á um skatta- og sjávarútvegsmál 

Fundað verður í málefnahópunum aftur á morgun klukkan 10 en formennirnir munu hittast fyrir fundinn og ræða saman.  „Þó gott hljóð sé í fólki eru heilmörg verkefni eftir,“ segir Katrín. Hún og Guðni Th. Jóhannesson ræddu saman í gær um stöðu mála og munu þau ræða saman síðar í vikunni að sögn Katrínar.  Hún segist þó búst við því að línur taki að skýrast betur eftir hádegi á morgun. 

„Mér heyrist að í hópunum sé mjög mikill samhljómur um forgangsröðun er varðar heilbrigðismál. En það er meira tekist á um skatta- og sjávarútvegsmál. Því er heilmikil vinna framundan,“ segir Katrín. 

Þingflokkarnir funda nú hver í sínu lagi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert