Tengsl vinaþjóða er styrkur NATO

Petr Pavel, hershöfðingi og formaður hermálanefndar NATO, ásamt Birni Bjarnasyni, …
Petr Pavel, hershöfðingi og formaður hermálanefndar NATO, ásamt Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra og formanni Varðbergs. mbl.is/Golli

„Styrkur okkar er ekki eingöngu kominn til vegna herafla okkar, heldur tengsla milli bandamanna, vina og þjóða sem hugsa eins. Samvinna við tví- og marghliða stofnanir er framtíð Atlantshafsbandalagsins (NATO),“ sagði Petr Pavel, hershöfðingi og formaður hermálanefndar NATO, í ávarpi sem hann flutti á hádegisfundi Varðbergs sem fram fór í Norræna húsinu í dag.

Pavel hershöfðingi hóf feril sinn innan tékkneska hersins árið 1983 og tók hann við núverandi stöðu innan Atlantshafsbandalagsins í júní 2015. Hann er fyrsti einstaklingurinn frá fyrrum austantjaldsríki til að skipa stöðu formanns hermálanefndar bandalagsins.

„Með því að nýta núverandi sambönd, auka tengslanetið og um leið samvinnu við marghliða öryggisstofnanir getum við tryggt sameiginlegan frið okkar og hagsæld,“ sagði Pavel enn fremur.

Pavel hershöfðingi vék einnig að málefnum Rússlands í ræðu sinni og sagði það m.a. hafa komið í ljós á undanförnum árum að Rússar vilja ekki eingöngu auka svæðisbundin áhrif sín, heldur reyna þeir nú að endurheimta stöðu sína sem heimsveldi. 

Til marks um þetta sagði Pavel að Vladimír Pútín Rússlandsforseti setji hersveitir sínar í leiðandi hlutverk.

„Þetta hófst fyrst með Transnistríu, síðan innan Georgíu og loks á Krímskaga og í Austur-Úkraínu. Þessi hegðun á sér einnig stað á Atlantshafinu og Norðurheimskautinu,“ sagði hann.

Nánar verður fjallað um fund Varðbergs og ræðu hershöfðingjans í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert