Vill vinna umbótaáætlun í samvinnu við kennara

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir miður að einhverjir hafi skilið …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir miður að einhverjir hafi skilið orð hans um kjaradeilu kennara á versta veg. mbl.is/Golli

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tjáir sig um kjaradeilu grunnskólakennara á Facebook-síðu sinni og kveðst ekki skilja hvers vegna einhverjir kennarar hafi brugðist illa við orðum sem hann lét falla í vikulegu fréttabréfi sl. föstudag.

„Í fréttabréfinu greindi ég frá því að eftir samtöl við marga góða kennara og skólafólk teldi ég að bæði þyrfti að bæta kjör kennara og hlúa að starfsumhverfi þeirra. Ég teldi því rétt að auk þess að bæta kjörin þyrfti að vinna sérstaka umbótaáætlun í samvinnu við kennara og skólafólk til að hefja nýja sókn í skólamálum. Ljóst er að þetta hafa einhverjir skilið á allt annan veg. Og er það miður,“ segir í færslu Dags.

Staðan sé alvarleg og þurfi síst af öllu á því að halda „að jákvæð viðbrögð við kröfum og ábendingum kennara séu lögð út á versta veg.“

Til að ekki þurfi að deila um hvað hann hafi sagt fylgi texti fréttabréfsins um hina alvarlegu stöðu í málum kennara orðréttur í færslunni. Þar segir að gott hafi verið að geta boðið þá kennara sem fjölmenntu á borgarstjórnarfundinn velkomna. „Staðan í vinnudeilu kennara og sveitarfélaganna er að mínu mati grafalvarleg, eins og ég hef bæði lýst í samtölum við fjölmiðla og fulltrúa kennara og skólafólks sem ég hef rætt við að undanförnu.“

Mikilvægt sé að kjaraviðræðurnar nú leiði til farsællar niðurstöðu. „Í umræðunni í síðustu viku hafa í það minnsta tveir fulltrúar kennara nefnt að ég hefði átt að minnast á þessi mál í vikupóstinum í síðustu viku, líkt og ég gerði í vikunni þar áður. Ég tel að þessi gagnrýni sé fyllilega réttmæt og biðst afsökunar á þessu. Það hefði verið bæði rétt að nefna undirskriftarsöfnun kennara og góðan fund sem ég átti með fulltrúum kennarahópsins sem kom hingað í ráðhúsið í kjölfarið,“ segir í færslu Dags, sem kveðst bjartsýnn á að lausn finnist og að hann leggi „áherslu á að nýr samningur verði liður í heildstæðri umbótaáætlun sem mótuð verði í samstarfi við kennara og annað fagfólk skólasamfélagsins, auk þess að bæta kjörin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert