Deilt um „pólitískan ómöguleika“

Píratar tilkynnta fyrir kosningar að fjórum flokkum hafi verið boðið …
Píratar tilkynnta fyrir kosningar að fjórum flokkum hafi verið boðið til viðræðna um stjórnarsamstarf. Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, Smári McCarthy og Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Heitar umræður hafa skapast á Pírataspjallinu á Facebook um þá tillögu þingmanna flokksins að fallið verði frá því skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstjórnarsamstarfi að ráðherrar verði ekki á sama tíma þingmenn. Stefna þess efnis var samþykkt í kosningakerfi Pírata í febrúar á þessu ári með miklum meirihluta atkvæða þeirra sem tóku þátt eða 115 atkvæðum gegn sjö. Fram kemur í greinargerð með tillögunni að um algjöra og ófrávíkjanlega kröfu sé að ræða.

Stefnan sem samþykkt var segir „að Píratar skuli ekki eiga aðild að ríkisstjórn þar sem ráðherrar sitji jafnframt sem þingmenn“ en ekki er tekin afstaða til þess í greinargerðinni hvort markmiði stefnunnar skuli náð með utanþingsráðherrum eða að ráðherrar víki sem þingmenn á meðan þeir gegni embættinu. „Með tillögunni er lagt til að gert skuli að algjörri og ófrávíkjanlegri kröfu af hálfu Pírata um stjórnarsamstarf að þessi háttur verði hafður á,“ segir ennfremur.

Skiptar skoðanir eru um tillögu þingflokks Pírata á Pírataspjallinu. Þeir sem styðja ákvörðunina segja nauðsynlegt að falla frá stefnunni til þess að Píratar geti tekið þátt í að mynda þá fimm flokka ríkisstjórn sem viðræður standa yfir um. Ekki sé hægt að framfylgja kröfunni þar sem hinir flokkarnir sem komi að viðræðunum séu ekki reiðubúnir að samþykkja að ráðherrar verði ekki þingmenn. Hins vegar sé stefnt að því að ráðherrar úr röðum Pírata verði ekki þingmenn á sama tíma.

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata.
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeir sem gagnrýna tillögu þingflokksins á Pírataspjallinu líkja málinu við ákvörðun fráfarandi ríkisstjórnar um að boða ekki til þjóðaratkvæðis um inngöngu í Evrópusambandið þrátt fyrir yfirlýsingar ýmissa frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins um að það yrði gert. Vísa þeir í ummæli sem Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, lét falla eftir þingkosningarnar 2013 þess efnis að ekki væri hægt að boða til slíks þjóðaratkvæði þar sem slíkt væri háð ákveðnum „pólitískum ómöguleika“.

Vísaði Bjarni þar til þess að ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, væru báðir andvígir inngöngu í Evrópusambandið og gætu þar af leiðandi ekki staðið að slíkri umsókn yrði samþykkt í þjóðaratkvæði að taka frekari skref í áttina að sambandinu. Einnig var bent á að hvað sem liði yfirlýsingum úr röðum frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins væri ljóst að Framsóknarflokkurinn væri andvígur því að Evrópusambandið yrði aftur sett á dagskrá með þessum hætti.

Einnig hefur verið bent á að fyrir þingkosningarnar hafi Píratar boðið fjórum öðrum flokkum til viðræðna um stjórnarsamstarf. Yfirlýst markmið hafi verið að kjósendur vissu fyrirfram hverju þeir ættu von á eftir kosningar í stað þess að þeim væri sagt eitt fyrir þær og síðan samið um annað í stjórnarmyndun eftir þær. Þannig hefðu kjósendur ítrekað verið sviknir eftir kosningar af stjórnmálaflokkum sem skýldu sér á bak við málamiðlarnir í stjórnarmyndun og bæru fyrir sig pólitískan ómöguleika.

Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Sú hefð hefur skapast í íslenskum stjórnmálum að loforð eru einatt svikin eftir kosningar og bera menn fyrir sig „pólitískum ómöguleika‟, eins og frægt er orðið. Hefðin er sú, að stjórnmálaflokkar sem mynda ríkisstjórnir á Íslandi skýla sér bakvið málamiðlanir í stjórnarmyndun. Þannig tekst þeim ítrekað að svíkja kjósendur sína. Við Píratar viljum koma í veg fyrir pólitískan ómöguleika. Við viljum kerfisbreytingar. Við ætlum ekki að blekkja kjósendur,“ sagði í yfirlýsingu Pírata vegna viðræðnanna.

Tillaga þingflokks Pírata, um að stefnan verði endurskoðuð þannig að hún nái aðeins til þingmanna flokksins, verður rædd á félagsfundi á föstudaginn eins og mbl.is greindi frá í dag. Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, segir á Pírataspjallinu að stefnan sé „absúrd“ og að hún gæti komið í veg fyrir aðild flokksins að ríkisstjórn. Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, hefur hins vegar lýst yfir stuðningi við stefnuna. Hann trúi ekki að aðrir flokkar láti stranda á henni.

Helgi lýsti að sama skapi yfir ánægju sinni með stefnuna í kjölfar þess að hún var samþykkt í febrúar. Fleiri gerðu það og þar á meðal Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, þingmaður Pírata sem sæti á í viðræðunefnd flokksins. Annar nýr þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, sem þá var varaþingmaður flokksins, fagnaði einnig samþykkt stefnunnar. Hvort stefnu Pírata verður breytt eða ekki kemur væntanlega í ljós á félagsfundinum á föstudaginn en ólíklegt er að aðrir flokkar verði tilbúnir að fallast á þá kröfu að allir ráðherrar mögulegrar fimm flokka ríkisstjórnar eigi ekki sæti á þingi.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert