Líður illa með þennan frest

Erla Bolladóttir og Sigursteinn Másson á blaðamannafundi nú síðdegis. Erla …
Erla Bolladóttir og Sigursteinn Másson á blaðamannafundi nú síðdegis. Erla segir að sér líði illa með þessa stöðugu frestun á úrskurði endurupptökunefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Endurupptökunefnd er ekki að átta sig á hlutverki sínu þegar hún ætlar að fara út fyrir rammann með því að rannsaka hvað varð um Geirfinn Einarsson. Þetta sagði Erla Bolladóttir á blaðamannafundi nú síðdegis, en hún sótti árið 2014 formlega um endurupptöku á Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Erlu barst í gær afrit af bréfi endurupptökunefndar þar sem segir að úrskurður nefndarinnar frestist þar sem nefndinni hafi borist fréttir af því að einstaklingur búi mögulega yfir upplýsingum um hvarf Geirfinns og hún hafi óskað eftir að settur ríkissaksóknari skoði það betur áður en úrskurður nefndarinnar liggi fyrir.

„Í bréfinu felast engar upplýsingar sem gagnast mér sem umsækjanda um endurupptöku. Skýrslan hefur ekkert að gera með umsókn mína um endurupptöku á þessu máli,“ segir Erla. „Ég er ekki að sækja um endurupptöku á þeim forsendum að einhver viti hvað varð um Geirfinn Einarsson, heldur sæki ég um endurupptöku á þeim forsendum að frá upphafi rannsóknar voru lög brotin og í gegnum málsmeðferð alla. Endurupptökunefnd á að taka afstöðu til þess hvort taka eigi upp málið á þeim forsendum.“

Lög geri ekki ráð fyrir að nefndin rannsaki þetta 42 ára gamla sakamál. „Heldur bara hvort dómarnir sem felldir voru yfir okkur stæðust ekki,“ sagði hún og kvaðst hafa trú á að það yrði niðurstaða nefndarinnar.

Síðustu fregnir voru að úrskurður nefndarinnar ætti að liggja fyrir nú í nóvember. „Ég hélt áður en bréfið kom að núna fengi ég uppkvaðningu úrskurðarnefndarinnar,“ segir hún og bætir við að nú séu margir mánuðir liðnir frá því hún fékk þá tilfinningu að úrskurður væri nokkuð ljós.

Spurð hvað valdi töfunum, segir hún starfsemi nefndarinnar hafa farið fram fyrir svo rammlega luktum dyrum að hún hafi á engum tímapunkti haft hugmynd um um hvað nefndin aðhafist. Sjálf hafi hallist hún þó stundum að því að það sé hræðsla sem valdi töfinni. „Ég hef giskað á að þeir séu hræddir, að hæstaréttarlögmenn óttist að koma fram fyrir hæstaréttardómara með þetta,“ segir hún. Síðast þegar það kom töf þá bað ég sérstaklega um skýringu og fékk það svar að málið er gríðarlega flókið.“

„Mér líður illa með þenna frest,“ sagði hún og traust mitt á kerfinu er orðið æði þunnt. Þetta er áframhaldandi ill meðferð og kúgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert