Búið að slíta stjórnarviðræðum

Eftir fund formannanna í Alþingishúsinu í dag.
Eftir fund formannanna í Alþingishúsinu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Búið er að slíta stjórnarviðræðum. Þetta var niðurstaða formannsfundar flokkanna fimm sem höfðu rætt formlega um stjórnarmyndun í vikunni, en það voru Vinstri grænir, Píratar, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylking sem voru í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum.

„Eftir mjög góða vinnu sem yfir 30 manns hafa komið að, þá liggur fyrir að ekki allir flokkar að minnsta kosti eru með næga sannfæringu fyrir að þetta gangi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.  „Þannig að ég hef ákveðið að þessum viðræðum sé slitið. Ég tel að það séu ekki forsendur fyrir því að þeim sé haldið áfram.“

Katrín sagði við fréttamenn eftir fundinn að þetta væru vonbrigði. Farið hafi verið í viðræðurnar af heilum hug og með stuðningi flokksfélaga. Sagði hún að í morgun á fundi formannanna hafi verið talað um að rætt yrði við þingmenn allra flokkanna sem ættu í viðræðunum til að athuga hvort sannfæring væri innan þeirra til samstarfs. Eftir fundina hafi verið ljóst að sú sannfæring væri ekki til staðar. 

Katrín vill ekki gefa upp hvaða flokkar það séu sem ekki hafi talið forsendur fyrir stjórnarsamstarfi. „En það hefur legið fyrir að það er málefnalega langt á milli flokka og það eru mikilvæg verkefni til dæmis sem varða fjármögnun uppbyggingar í heilbrigðis- og menntakerfinu sem skipta að mínu viti gríðarlega miklu máli fyrir næstu ríkisstjórn sem tekur hér við. En það er líka málefnaágreiningur þótt við höfum færst nær í viðræðum undanfarinna daga,“ segir hún.

Katrín ræddi við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, fimm mínútum fyrir fund sinn með formönnunum og skýrði honum frá þessari niðurstöðu. Sagði Katrín að hún hefði enn ekki gert upp hug sinn varðandi hvort stjórnarmyndunarumboðinu yrði skilað, en forsetinn hefði sagt henni að sofa á því í nótt.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, að loknum fundi í dag.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, að loknum fundi í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert