Smáíbúðir byggðar í Garðabæ

Byggðar verða íbúðir í Urriðaholti frá 25 fermetrum og upp …
Byggðar verða íbúðir í Urriðaholti frá 25 fermetrum og upp úr. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Garðabær tekur forskot í þróun og byggingu smáíbúða á Íslandi, en bærinn hefur undanfarið unnið að undirbúningi þeirra í Urriðaholti í Garðabæ í samstarfi við þróunaraðila hverfisins, sem m.a. er í eigu eigenda IKEA á Íslandi. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem gert er ráð fyrir 25 m2 íbúðum í bland við stærri íbúðir.

Teikningar af íbúðum í Urriðaholti í Garðabæ.
Teikningar af íbúðum í Urriðaholti í Garðabæ. Arkís

Jón Pálmi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Urriðaholts, segir að skipulagsferlinu sé að ljúka og nú styttist í framkvæmdastig. Áætlað er að byggingarframkvæmdir hefjist fljótlega eftir áramót og verða fyrstu íbúðir tilbúnar vorið 2018 ef allt gengur eftir. „Þetta verða leiguíbúðir en bærinn gerði strax þá kröfu að húsið allt, 34 íbúðir, yrði í eigu sama aðila og íbúðirnar yrðu í langtímaleigu,“ segir Jón og bætir því við að þrátt fyrir smæð þeirra verði engum þægindum fórnað.

„Hönnun íbúðanna kemur víða að og margir hafa lagt lóð sín á vogarskálarnar, t.d. leitað í smiðju IKEA, sem hefur hannað og verið með til sýnis hjá sér lausnir fyrir smærri íbúðir.“

Hvergi er slakað á kröfum, t.d. með salerni og eldunaraðstöðu í hverri íbúð, en meginávinningur felst í smæð íbúða.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir ánægjulegt að bærinn skuli taka forystu í verkefni sem þessu sem leitt geti til aukinnar sjálfbærni og breiðara íbúðavals í bænum.

„Þetta er þróunarverkefni sem við gáfum grænt ljós á og viljum sjá hvernig reynist. Við erum að reyna að koma til móts við ungt fólk og það verður spennandi að sjá hvernig þetta lukkast,“ segir Gunnar og bendir á umhverfið fái líka að njóta vafans.

„Umhverfisþátturinn er ekki síður mikilvægur, en fjöldi fólks vinnur á þessu svæði og það er mikilvægt að bjóða sem flestum möguleika á að búa á svæðinu og draga úr löngum ferðalögum til og frá vinnu.“

Smáíbúðir verða byggðar í Garðabæ.
Smáíbúðir verða byggðar í Garðabæ. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Ljósmynd/Urriðaholt/Helifilms
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert