Kröfu vegna kjararáðs hafnað

Ríkisforstjórinn var einn þeirra sem ákveðið var með lögum frá …
Ríkisforstjórinn var einn þeirra sem ákveðið var með lögum frá Alþingi að lækka í launum í kjölfar bankahrunsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hæstiréttur sýknaði ríkið af kröfu forstjóra Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi sem krafðist réttar síns eftir að hann og fleiri embættismenn voru lækkaðir í launum í kjölfar hrunsins. Upphaflega krafðist hann ógildingar ákvarðana kjararáðs. Allir dómarar sögðu sig frá málinu í héraði.

Í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 voru sett lög þar sem laun æðstu embættismanna þjóðarinnar og síðan annarra embættismanna voru lækkuð. Kjararáði var einnig bannað að hækka laun þeirra til ársloka 2009. Það tímabil var síðan framlengt til nóvemberloka 2010.

Í desember árið 2011 ákvað kjararáð svo að launalækkanirnar skyldu ganga til baka frá og með 1. október það ár.

Valbjörn Steingrímsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi, stefndi ríkinu vegna þessa og krafðist þess að þessi og fyrri ákvörðun kjararáðs árið 2011 skyldu ógiltar þar sem þær hefðu ekki verið teknar á réttum forsendum. Hæstiréttur vísaði þeirri kröfu frá í fyrra.

Í áfrýjun sinni til Hæstaréttar nú krafðist Valbjörn þess að viðurkennd yrði krafa hans um að afturköllun launalækkunarinnar miðaðist við 1. desember árið 2010 en ekki 1. október 2011 eins og kjararáð miðaði við. Taldi hann að laun sín hefðu sjálfkrafa átt að fara í fyrra horf þegar bráðabrigðaákvæðið um kjararáð rann úr gildi.

Hæstiréttur taldi hins vegar að kjararáð hafi átt að ákveða um laun samkvæmt almennum reglum sem um það giltu. Kjararáði hafi ekki borið skylda til að draga launahækkun hans til baka strax 1. desember árið 2010. Sýknaði hann því ríkið af kröfu Valbjarnar.

Kjararáð ákveður meðal annars laun dómara og sögðu allir dómarar Héraðsdóms Reykjavíkur sig frá málinu þegar það var lagt fyrir dóminn. Í Hæstarétti kváðu upp dóminn einn hæstaréttardómari, einn héraðsdómari, einn hæstaréttarlögmaður og tveir prófessorar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert