Össur vill sjá Alþingi stjórna Íslandi

Össur Skarphéðinsson telur að það væri áhugaverð tilraun að láta …
Össur Skarphéðinsson telur að það væri áhugaverð tilraun að láta þingið stýra landinu um nokkurra mánaða skeið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Getur verið að ríkisstjórnir séu ofmetnar? Þessu veltir Össur Skarphéðinsson fyrir sér í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni nú í kvöld. Þar segir hann að það væri forvitnileg tilraun að sjá Alþingi stjórna landinu um nokkurra mánaða skeið.

Össur nefnir sem dæmi að Spánn hafi verið stjórnlaus eftir tvennar kosningar og líklegt sé að ný ríkisstjórn þar í landi falli með fyrstu fjárlögum. „Í stjórnleysinu hefur þó flest gengið Spánverjum í hag og hagvöxtur talinn skríða yfir 3% í fyrsta skipti um árabil,“ segir í færslunni.

Belgía, land súkkulaðsins og ein af helstu miðstöðvum Evrópu, hafi þá um árabil verið „verið meira og minna stjórnlaust land,“ án þess eftir því væri tekið, jafnvel ekki af Belgum sjálfum.

„Það væri alla vegar forvitnileg tilraun að sjá Alþingi stjórna landinu um nokkurra mánaða skeið. Lilja stendur sig prýðilega við að stýra Íslandi út á við eftir utanríkisstefnu þar sem grundvallaratriðin njóta breiðrar samstöðu. Sigurður Ingi er fullkomlega til friðs í Stjórnarráðinu og verður því betri og viðkunnalegri forsætisráðherra sem völd ríkisstjórnarinnar minnka,“ segir Össur.

Menn eigi vitaskuld að drífa sig í að kalla saman þing, „og leyfa því án afskipta áreitins framkvæmdavalds að spreyta sig á að leysa þau örfáu mál sem lausnar krefjast. Allir verða góðir við alla nema Brynjar og Birgitta bítast.

Það fer ekkert til fjandans á meðan. Út úr því slípa menn hornin, hafa tíma til að ræða meintan ágreining til þrautar - og líklegt að út úr því kæmi hin bærilegasta ríkisstjórn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert