Áhyggjuefni að ofnunum eigi eftir að fjölga

Helguvík í Reykjanesbæ. Reykur frá kísilverksmiðju United Silicon hefur valdið …
Helguvík í Reykjanesbæ. Reykur frá kísilverksmiðju United Silicon hefur valdið bæjarbúum ama undanfarið. mbl.is

Mikið er fjallað um reykinn og lyktina sem borist hefur frá kísilverksmiðju United Silicon, og óþægindin sem íbúar Reykjanesbæjar hafa fundið fyrir vegna þessa, á lokaðri Facebook-síðu bæjarbúa. „Íbúar Reykjanesbæjar eiga ekki að vera tilraunadýr!“ segir í athugasemdum með einni færslunni. Annars staðar veltir einn því fyrir sér hvort nokkurt gagn sé í mengunarvarnarbúnaði og ljóst er að málið veldur íbúum áhyggjum.

Dagný Alda Steinsdóttir, félagi í Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, sem býr í Reykjanesbæ segir íbúa nú hafa fundið fyrir óþægindum frá verksmiðjunni í hálfan mánuð. „Og alltaf eru þeir bara í einhverjum startholum,“ segir hún og kveður marga íbúa hafa fundið fyrir langvarandi höfuðverk og svo blasi reykmengunin frá verksmiðjunni við. 

Frétt mbl.is: Á fjórða tug kvartana

„Ég fór á heilsugæsluna í dag og ræddi við nokkra lækna þar og þeir hafa fengið ótal mörg dæmi þar um að fólk sé að leita sér útskýringa vegna vanlíðunar. Þannig að það er ekki spurning að fólk er farið að finna fyrir þessu,“ segir hún og bætir við „og þá erum við bara að tala um einn ofn af fjórum sem er verið að setja af stað.“

Ofninn er sá fyrsti af fjórum sem United Silicon ráðgerir að gangsetja og segir Dagný Alda það virkilega valda fólki áhyggjum að það eigi enn eftir að bætast við þrír ofnar.

Deilur hafa verið um stóriðjuframkvæmdir í Helguvík og minnir Dagný Helga á að hópur íbúa hafi safnað undirskriftum fyrir um einu og hálfu ári síðan til að krefjast íbúakosningar um framkvæmdina. „Þá strax sögðu bæjaryfirvöld að það skipti ekki máli hvernig kosningin færi, því það væri þegar búið væri að taka þessar ákvarðanir.“

Hún kveðst þó telja að það hljóti að vera farnar að renna tvær grímur á bæjaryfirvöld rétt eins og íbúa.

Dagný Alda segir bæjaryfirvöld ekki hafa rætt málefni kísilverksmiðjunnar beint við íbúa, en kveðst þó vita til þess að þau hafi rætt við United Silcon og Umhverfisstofnun.

„Fólk er uggandi yfir framtíðinni og er farið að finna fyrir ýmsum einkennum. Því finnst bæjaryfirvöld ekki hafa tekið forystu í þessu máli, þannig að ég vona að þau geri það þá bara núna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert