Lóurnar gleðja vegfarendur í Grafarvogi

Heiðlóur halda til á sandleirunum í Grafarvogi.
Heiðlóur halda til á sandleirunum í Grafarvogi. mbl.is/Bogi Þór Arason

Heiðlóur á sandleirum í Grafarvogi hafa glatt vegfarendur síðustu daga, en þar hafa um 20 lóur haldið sig við volgrur nálægt fjörunni. Ungfuglar og lóur í vetrarbúningi eru flikróttar að ofan og ljósar að neðan. Dökka litinn á bringu og kvið sem einkennir varpfugla fá þær síðan við fjaðrafelli á vorin í mars-apríl.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur og sviðsstjóri hjá Náttúrufræðistofnun, segir það ekki undur og stórmerki að lóa sjáist hér fram eftir nóvembermánuði og jafnvel fram í desember. „Fyrir tegundir eins og lóuna sem þarf þó ekki að fara lengra en til Bretlandseyja er ekki óalgengt að þær sjáist fram í desember, en afar sjaldan eftir það og fram í marslok. Þá sjást fyrstu farlóurnar venjulega,“ segir Kristinn Haukur.

Ættu að fara að drífa sig

„Tíðarfarið hefur verið óvenju hagstætt í allt haust með nánast samfelldri sunnanátt í tvo mánuði þar til núna að það kom smáhret. Fuglarnir notfæra sér ástandið og fara ekki fyrr en þeir þurfa. Lóan hefur enn ætismöguleika í fjörunum, til dæmis í Grafarvoginum, en ef það kólnar mjög mikið færa smádýrin í leirunni sig neðar í jarðveginn og fuglarnir ná þeim ekki.

Það er því ákveðin áhætta fólgin í því að treysta á leirurnar, en lóan hefur ýmsa möguleika til að bjarga sér, eins og að færa sig út á Seltjarnarnes þar sem eru þangfjörur. Ég held samt að það væri skynsamlegra hjá lóunni að fara að drífa sig til vetrarheimkynnanna,“ segir Kristinn Haukur.

Hann segir það hafa vakið athygli við talningu á gæsum á Suðurlandsundirlendi fyrir tíu dögum að þá hafi þar enn verið talsvert af lóum. Frekar óvenjulegt sé að þær sjáist svo seint þar.

Hrossagaukar hafa einnig sést á sömu slóðum og lóurnar, en þeir fara langflestir af landi brott á veturna. Nokkuð af fuglum heldur þó til við kaldavermsl og volgrur allan veturinn, t.d. í Grafarvogi og upp með Grafarlæk.

aij@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert