Siðferðisleg skylda til að bíða úrskurða

Möstur Kröflulínu.
Möstur Kröflulínu. Ljósmynd/Sigríður Ragna Helgadóttir

Framkvæmdastjóri Landverndar segir það vonbrigði að rask sem varð til við framkvæmdir við Kröflulínu 4 á forsendum framkvæmdaleyfis sem síðar var fellt úr gildi hafi orðið til þess að úrskurðarnefnd hafnaði að stöðva framkvæmdirnar. Framkvæmdaaðilum beri siðferðisleg skylda til að bíða úrskurða.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði í gær kröfu Landverndar og Fjöreggs, félags um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, um að framkvæmdir Landsnets við Kröflulínu 4 í Leirhnjúkshrauni, Neðra-Bóndhólshrauni og opnu víðerni yrðu stöðvaðar á meðan nefndin úrskurðar um kæru samtakanna á framkvæmdaleyfi sem Skútustaðarhreppur veitti til framkvæmdanna.

Frétt Mbl.is: Hafna stöðvunarkröfu Landverndar

Úrskurðurinn er nýjasta vendingin í framkvæmdunum á svæðinu en úrskurðarnefndin felldi fyrra framkvæmdaleyfi hreppsins úr gildi í október eftir kæru sömu samtaka. Áður hafði nefndin stöðvað framkvæmdir í Leirhnjúkshrauni í sumar. Í kjölfarið úrskurðarins í október gaf sveitarstjórnin út nýtt leyfi vegna framkvæmdanna en samtökin hafa sömuleiðis kært það. Þau telja að Landsneti hafi borið að leggja mat á umhverfisáhrif þess að leggja hluta raflínanna í jörðu og kanna fleiri línuleiðir.

Kröflulínu 4 er ætlað að tengja Þeistareykjavirkjun við meginflutningskerfi raforku á landinu í tengslum við stóriðjuframkvæmdir á Bakka.

Úrskurðurinn ber þess merki að ekki var beðið

Nefndin hefur enn ekki úrskurðað um nýja framkvæmdaleyfið en samtökin fóru fram á að hún stöðvaði framkvæmdirnar á meðan. Þeirri kröfu hefur nefndin nú hafnað með bráðabrigðaúrskurði sínum, meðal annars með þeim rökum að rask hefði þegar átt sér stað í Neðra-Bóndhólshrauni vegna framkvæmda í sumar og haust og að framkvæmdir í Leirhnjúkshrauni væru hvort eð er í biðstöðu vegna ágreinings um eignarnám í landi Reykjahlíðar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar.

„Ástæða þess að framkvæmdir eru ekki stöðvaðar núna í Bóndhólshrauni og á víðernum svæðisins virðist vera sú að þegar sé búið að raska svæðinu. Það rask var gert í sumar og haust með framkvæmdaleyfi sem síðar var fellt úr gildi af úrskurðarnefndinni. Í ljósi þess er niðurstaðan vissulega vonbrigði,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar.

„Almennt vil ég segja að framkvæmdaaðilum ber að mínu mati siðferðisleg skylda til að bíða eftir niðurstöðum kærumála áður en haldið er áfram með framkvæmdir. Það var ekki gert í þessu máli og nýr stöðvunarúrskurður virðist bera þess skýr merki,“ segir hann.

Í úrskurðinum er að finna fyrirvara um að framkvæmdir séu alfarið á ábyrgð Landsnets á meðan efnisleg niðurstaða nefndarinnar liggur ekki fyrir um framkvæmdaleyfið.

Guðmundur Ingi segist ekki treysta sér til þess að lesa neitt úr þeim fyrirvara um hver niðurstaða úrskurðarnefndarinnar verður um kæru samtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert