„Snjallt útspil hjá forsetanum“

Katrín Jakobsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson á Bessastöðum.
Katrín Jakobsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson á Bessastöðum. mbl.is/Ófeigur

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að útspil Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, um að bíða með að veita öðrum flokki umboð til stjórnarmyndunar hafi verið snjallt. Hann segir það ekki hafa komið sér á óvart að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hafi skilað umboðinu.

Frétt mbl.is: Enginn flokkur fær umboðið

Sams konar staða árið 1979

„Það liggur fyrir núna að það er engin tiltekin stjórnarmyndun í bígerð og því ekki augljóst hver ætti að fá hið formlega umboð. Þess vegna held ég að þetta sé nokkuð snjallt útspil hjá forsetanum að bíða og sjá. Um leið hvetur hann menn eindregið til þess að axla ábyrgð og horfa með jákvæðum hætti til þess að gera málamiðlanir til að hægt sé að koma á starfhæfri ríkisstjórn í landinu,“ segir Baldur.

Hann minnir á að sams konar staða hafi síðast komið upp hér á landi í desember árið 1979 þegar Kristján Eldjárn, þáverandi forseti, beitti sömu aðferð.

Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur og prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.
Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur og prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Baldur reiknar með því að hlutirnir muni skýrast í fyrri hluta næstu viku. „Ef það verða einhverjir tilbúnir þá til að hefja viðræður um myndun stjórnar mun það taka einhvern tíma. Ef það liggur í næstu viku fyrir að engin meirihlutastjórnarmyndun er á borðinu gerir maður ráð fyrir að farið verði að huga að hugsanlegri minnihlutastjórn,“ segir Baldur og telur að sú umræða verði tekin áður en til greina kemur að skipa utanþingsstjórn.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Ófeigur

Þungt hljóðið í forsetanum

Það vakti athygli Baldurs hversu forsetinn var bjartsýnn á blaðamannafundinum í morgun á að það takist að mynda stjórn. Hann hafi brýnt menn til verka en á sama tíma hafi verið þungt í honum hljóðið. Þannig hafi það ekki verið hingað til. „Þetta sýnir hvað staðan er erfið, að það eru í rauninni engir formlegri möguleikar í stöðunni í augnablikinu,“ segir hann og telur ástæðuna fyrir því meðal annars vera þá að margir hafi verið búnir að útiloka samvinnu við tiltekna flokka.

„Þetta var auðvitað gert á grundvelli málefna. Þegar menn hafa útilokað samvinnu er erfitt að bakka með það. Ef maður les á milli línanna þá er forsetinn að biðla til manna að slíðra sverðin og líta til mikilvægis þess að í landinu sé starfhæf ríkisstjórn,“ greinir hann frá.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

VG og Sjálfstæðisflokkurinn gætu náð saman

Að mati Baldurs er ekki endanlega útséð með að ríkisstjórn Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins verði mynduð, líklega með Samfylkingunni eða Framsóknarflokknum, þrátt fyrir að Katrín hafi skilað umboði sínu. Sú ákvörðun hennar kom honum ekki á óvart.

Frétt mbl.is: Katrín skilar umboðinu

„Til þess að Vinstri grænir og Sjálfstæðismenn geti sest niður í formlegar stjórnarmyndunarviðræður þarf aðeins meiri tíma. Það þarf líklega lengri stjórnarkreppu til þess að Vinstri græn séu tilbúin til formlegra viðræðna við Sjálfstæðisflokkinn.“

Spurður hvort stjórnarkreppa sé í landinu segir hann: „Þegar staðan er orðin þannig að forseti telur sér ekki fært að veita neinum umboðið vegna þess að það liggja engir augljósir kostir á borðinu, þá erum við komin að stjórnarkreppu.“

Þurfa að svíkja kosningaloforð

Baldur segir að núna hafi menn frjálsar hendur til að mynda stjórn. „Ég hef heyrt að þingflokksformaður Pírata vilji aftur reyna að mynda fimm flokka ríkisstjórn. Sjálfstæðismenn geta líka kannað grundvöllinn á samstarfi við VG og tekið þriðja flokkinn inn í það. Líklega er það vænlegast til árangurs í stöðunni að allir þreifi fyrir sér en menn þurfa bæði að svíkja kosningaloforð um að þeir ætli ekki að starfa með tilteknum aðila og að slá verulega af sínum stefnumálum ef það á að myndast meirihlutastjórn í landinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert