Stúlkurnar á bilinu 14 til 16 ára

Lögreglan á Suðurnesjum er með málið til rannsóknar.
Lögreglan á Suðurnesjum er með málið til rannsóknar. mbl.is/Sigurður Bogi

Héraðsdómur Reykjaness hefur framlengt gæsluvarðhald yfir erlendum karlmanni, sem grunaður er um að hafa tekið myndir í óleyfi af Facebook-síðum ungra stúlkna og birt þær á eigin vefsíðu undir því yfirskyni að þær væru falar til fylgdarþjónustu.

Í samtali við mbl.is segir Sveinbjörn Halldórsson, lögreglufulltrúi lögreglunnar á Suðurnesjum, að aldur stúlknanna sé á bilinu 14 til 16 ára.

Blygðunarsemisbrot

Er maðurinn grunaður um að hafa tekið myndir af Facebook-síðum þeirra og notað á vef sínum.

„Svo er ýtt á myndirnar og þá birtist einhver gróf erlend klámsíða,“ segir Sveinbjörn og tekur fram að þannig hafi engar klámfengnar myndir verið af sjálfum stúlkunum. Hátternið varði þó við lög.

„Þetta hlýtur að vera blygðunarsemisbrot, og náttúrulega brot á barnaverndarlögum, að sýna þarna börn með kynferðislegri tilvísun.“

Á þriðja tug kæra hefur borist embættinu frá foreldrum stúlknanna, en mbl.is hefur áður greint frá miklum fjölda kæra í málinu.

Vakti athygli á Beauty Tips

Upp komst um vefsíðuna í kjölfar umræðna á Facebook-hópnum Beauty Tips, að sögn Sveinbjörns.

„Þar voru einhverjir að tala um þessa síðu og þegar við fórum að skoða þetta kom í ljós hvers eðlis var.“

Maðurinn, sem er á fimmtugsaldri, var handtekinn 17. nóvember síðastliðinn, en varðhald hans hefur nú verið framlengt til næsta fimmtudags, þann 1. desember. Var þess krafist á grundvelli rannsóknarhagsmuna og hættu á áframhaldandi brotum.

Frétt mbl.is: Fjöldi kæra borist frá foreldrum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert