Tæplega 100 kennarar sagt upp

Uppsögnum grunnskólakennara fjölgar.
Uppsögnum grunnskólakennara fjölgar. mbl.is/Árni Sæberg

10 grunnskólakennarar, sem eru með stystan starfsaldur, sögðu upp starfi sínu við Hólabrekkuskóla í dag. Í skólanum eru tæplega 50 starfandi grunnskólakennarar.

„Það er mjög mikilvægt að góðir samningar náist við kennara sem allra fyrst,“ segir Hólmfríður G. Guðjónsdóttir skólastjóri Hólabrekkuskóla. Spurð hvort hún telji fleiri uppsagnir muni bætast við á næstunni segist Hólmfríður ekki geta svarað því. Það velti alfarið á hvort samningar náist fljótlega við kennara.  

Að minnsta kosti hafa 54 uppsagnir grunnskólakennara borist í Reykjavík, samkvæmt heimildum mbl.is.

Í Reykjanesbæ eru uppsagnirnar orðnar 40 talsins en 17 uppsagnir bættust við í dag. Þetta eru 24% grunnskólakennara í öllu sveitarfélaginu.

Samtals hafa 94 grunnskólakennarar sagt upp starfi sínu á suðvesturhorni landsins, í Reykjavík og í Reykjanesbæ. Starfandi grunnskólakennarar á öllu landinu eru 4.300. 

„Við erum uggandi yfir stöðunni,“ segir Helgi Arn­ar­son, sviðsstjóri fræðslu­sviðs Reykja­nes­bæj­ar. Spurður hvort sveitarstjórnin muni gripa til aðgerða vegna stöðunnar, segir Helgi að ekki hafi verið tekin ákvörðun um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert