Tvö og hálft ár fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp dóm sinn í málinu.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp dóm sinn í málinu. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á fertugsaldri í fangelsi til tveggja og hálfs árs fyrir að nauðga sautján ára stúlku. Fram kemur í dómnum að maðurinn hótaði því að raka af henni hárið, veitti hún honum ekki munnmök inni á baðherbergi.

Neitaði maðurinn sök fyrir dómi og sagði kynferðismök þeirra hafa átt sér stað með hennar samþykki og að hennar frumkvæði. Þá kvað hann ekki vera rétt að hann hefði haft orð á því að raka höfuð stúlkunnar, eins og hann hafði sagt við yfirheyrslu hjá lögreglu.

Framburður hennar á einn veg

Í dómnum segir að brot mannsins hafi verið til þess fallið að valda brotaþola mikilli andlegri vanlíðan, ekki síst í ljósi ungs aldurs hennar. Af framburði stúlkunnar fyrir dómnum hafi þá verið ráðið að verknaðurinn hafi fengið mjög á hana.

Brotin áttu sér stað í samkvæmi á heimili mannsins, en Héraðsdómur segir þau tvö vera ein til frásagnar um það sem gerðist inni á baðherberginu. Var þá litið til þess að framburður hennar hefði alla tíð verið á einn veg, hvað varðar þau atriði sem máli skipta, og að hann nyti stuðnings í framburði vitna.

Milljón króna í miskabætur

Maðurinn, sem fæddur er árið 1984, hefur áður verið dæmdur til refsingar fyrir brot gegn fíkniefnalögum og umferðarlögum, og var í júlí á síðasta ári dæmdur fyrir rán. Var skilorðsbundinn hluti þess dóms, sem nam sex mánuðum, tekinn upp og dæmdur að nýju með þessum dómi réttarins.

Auk þess var honum gert að greiða stúlkunni eina milljón króna í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert