Yfir 20 stiga hiti á Dalatanga

Dalatangi.
Dalatangi. www.mats.is

Allmikil lægð tók sér bólfestu við Jan Mayen í nótt og blæs stífum vestanvindum yfir landinu og ná þeir sums staðar stormstyrk norðaustan til.

Birtir víða til í dag, en áfram smá skúrir eða él hér og þar. Mjög hlýtt var á landinu í nótt og fór hiti t.d. yfir 20 stig á Dalatanga. Lægðin beinir nú köldu lofti yfir landið og kólnar því talsvert næsta sólarhring, fyrst á Vestfjörðum. Frystir víða síðdegis og þá má reikna með lúmskri hálku á vegum, samkvæmt upplýsingum af Veðurstofu Íslands.  

„Lægðin tekur á rás austur á bóginn í nótt og gengur þá vindurinn niður, en herðir jafnframt á frostinu. Morgundagurinn verður með ágætum, hægir vindar og yfirleitt bjartviðri, en um kvöldið hvessir af suðaustri og hlýnar með slyddu eða rigningu fyrir sunnan og vestan,“ segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Vegir á Suðurlandi eru greiðfærir. Á Vesturlandi eru vegir einnig að mestu greiðfærir en þó eru hálkublettir á fáeinum vegum, s.s. á Bröttubrekku.

Það éljar á Vestfjörðum og þar er því víða nokkur hálka eða krap en þæfingur er á Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði. Vegir við Breiðafjörð og Djúp eru þó mikið til auðir.
 
Aðalleiðir á Norðurlandi eru að mestu greiðfærar en þó er hálka og éljagangur á Öxnadalsheiði. Sums staðar eru hálkublettir eða hálka á útvegum.

Það er autt yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi og eins eru flestir vegir á Austurlandi greiðfærir þótt sums staðar sé nokkur hálka, aðallega á sveitavegum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert