Vantar vísindin við endurheimt mýra

Sú mikla áhersla sem stjórnmálaflokkarnir hafa lagt á endurheimt votlendis til að draga úr losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum hefur komið sérfræðingum hjá Skógræktinni á óvart. Afar takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um losun frá framræstu votlendi og hverju það gæti skilað að moka ofan í skurði. 

Allir stjórnmálaflokkarnir sem náðu mönnum inn á þing nema Vinstri græn nefndu endurheimt votlendis sem aðgerð sem þeir vilja ráðast í þegar Mbl.is spurði þá út í stefnu þeirra í loftslagsmálum fyrir alþingiskosningarnar í október. Sérstaka áherslu lögðu Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Píratar á þá aðgerð til að draga úr losun í sínum svörum. Viðreisn sagði þannig „langstærstu tækifærin“ til að draga úr losun felast í endurheimt votlendis og Píratar stefna að því að ljúka henni fyrir árið 2025.

Frétt Mbl.is: Hver er stefnan um framtíð jarðar?

Endurheimt votlendis virðist hins vegar hafa ratað inn í stefnuskrár flokkanna án mikillar athugunar á hvers konar árangri hún gæti skilað. Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, segir núverandi þekkingu ekki uppfylla skilyrði til að hægt sé að leggja fram heildartölur um losun frá framræstu votlendi á landsvísu, hvað þá hversu mikið hægt sé að draga úr losun með sérstökum aðgerðum eins og að moka ofan í framræsluskurði.

„Það sem ég hef mestar áhyggjur af er að menn séu að fara offari í að hrapa að ályktunum um kosti þess að moka ofan í skurði sem hagkvæma og auðvelda leið fyrir íslenskar loftslagsaðgerðir,“ segir hann og bendir á að litlar sem engar ritrýndar rannsóknir hafi verið birtar hér á landi um þetta efni.

Hófst með fyrirspurn á Alþingi

Þegar skurðir eru grafnir til þess að ræsa fram land, líkt og gert var í töluverðum mæli á Íslandi á 20. öld, þornar mýrarjarðvegur og byrjar að rotna. Þá losna gróðurhúsalofttegundir út í lofthjúpinn þar sem þær stuðla að hnattrænni hlýnun.

Umræðan um endurheimt votlendis til að draga úr losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum hófst fyrir alvöru í kjölfar svars umhverfisráðherra við fyrirspurn Sigríðar Á. Andersen, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu votlendi í fyrra.

Frétt Mbl.is: Batnar ekki með öðru verra

Af því svari mátti ráða að hún væri mun meiri en frá öllum öðrum geirum, þar á meðal bílasamgöngum, sjávarútvegi og landbúnaði. Þingmaðurinn hefur í kjölfarið ítrekað fjallað um endurheimt votlendis í ræðu og riti, meðal annars í því samhengi að fella ætti niður gjöld á bíla sem brenna jarðefnaeldsneyti þar sem hlutur þeirra í losun Íslands sé hlutfallslega lítill í samanburði við framræst votlendi.

Í svarinu var þó settur fram sérstakur fyrirvari um að villandi geti verið að birta upplýsingar um losun frá framræstu landi og bera þær saman við losun frá öðrum uppsprettum, svo sem frá bruna jarðefnaeldsneytis eða iðnaðarferlum, án skýringa.

Þrátt fyrir það hafa nær allir stjórnmálaflokkar gert endurheimt votlendis að stefnumáli sínu í kjölfarið. 

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt mikla áherslu á …
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt mikla áherslu á endurheimt votlendis. mbl.is/Eggert

Ekki hægt að byggja á viðmiði IPCC

Upplýsingarnar um losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu votlendi sem koma fram í svari ráðherrans byggjast á viðmiðum um losun frá mýrum á norðurhveli jarðar sem loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) gefur út. Aðalsteinn segir hins vegar ekki hægt að byggja á þeim viðmiðum þegar kemur að því að áætla þátt framræslu eða endurheimtar votlendis inni í losunarbókhaldi Íslands.

„Ég tek þessar tölur eiginlega ekki trúanlegar sem eitthvað sem við getum treyst á í okkar gerð mýra. Okkar mýrar eru miklu öskuríkari en gengur og gerist á norðlægum slóðum vegna áfoks og eldvirkni,“ segir hann.

Þá bendir Aðalsteinn á að ef íslensk stjórnvöld ætluðu að telja sér endurheimt votlendis til tekna sem loftslagsaðgerð gætu þau ekki byggt á viðmiðum IPCC. Gerðar yrðu ríkar kröfur um beinhörð gögn frá ítarlegum rannsóknum og helst vöktun á svæðunum sem aðgerðir beindust að. 

Sendinefndir IPCC sem hingað koma til þess að fara yfir áreiðanleika upplýsinga muni seint samþykkja aðgerðir sem einungis byggðu á útgiskunum út frá alþjóðlegum sjálfgildisstuðlum. Slíkir stuðlar hafi verið notaðir á fyrstu árum Kýótósamningsins til þess að áætla bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu en nú séu gerðar kröfur til þéttriðins nets vaktaðra mælireita. 

„Það er ekki fyrr en slíkar tölur um votlendisendurheimt koma fram í dagsljósið sem hægt er að gera betur grein fyrir því hvaða matarholu sé þarna að finna fyrir aðgerðir íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Sú er ekki staðan núna,“ segir Aðalsteinn.

Losunin stöðvast ekki við endurheimt

Þær litlu rannsóknir sem hafi verið gerðar og birtar á Íslandi hafi verið á örfáum stöðum. Þær hafa verið bundnar við einn landshluta en þau gögn hafa verið yfirfærð á allt framræst votlendi á Íslandi til að slá tölu á mögulega heildarlosun frá framræslu á Íslandi, að sögn Aðalsteins.

Ekki er heldur einfalt mál að leggja mat á losun frá framræstu votlendi. Losunin er breytileg eftir hitafari, úrkomu og fleiri umhverfisþáttum og einnig milli ára og staða. Þá stöðvast losun á gróðurhúsalofttegundum ekki við það að bleyta upp í framræstu landi því óraskað votlendi losar þær einnig, þar á meðal metan sem er margfalt öflugari gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur þó að hún sé skammlífari í lofthjúpnum.

Hnattræn hlýnun gæti enn fremur þýtt að losun frá óröskuðu votlendi á Íslandi aukist á komandi árum, bæði á metani og koltvísýringi.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar. ljósmynd/Skógræktin

„Þegar allt er tekið saman er minni losun úr óraskaðri mýri en framræstri en hver þessi munur er á heildarflatarmáli framræsts lands á Íslandi það hefur enginn hugmynd um held ég. Menn geta komið með ágiskanir sem byggjast á föstum eða margfeldum og flatarmáli misvel framræsts lands en það er eiginlega verið að skjóta út í loftið,“ segir Aðalsteinn.

Hann leggur áherslu á að efla verði rannsóknir áður en ráðist verði í að moka ofan í skurði í stórum stíl til að berjast gegn loftslagsbreytingum.

„Ef ég ætti að leggja til aðgerð í þessum málum myndi ég kannski bíða með stórfelldar aðgerðir við votlendisendurheimt sem allir stjórnmálaflokkarnir voru að leggja fram fyrir þessar kosningar og leggja þeim mun meiri vinnu í þessar rannsóknir og vöktun á losun og minni losun vegna endurheimtar. Það þarf bara miklu betri undirlag fyrir allar slíkar aðgerðir en það að allir stjórnmálaflokkar skuli vera sammála um að þetta sé gott mál. Mér finnst bara hreinlega vanta gagnreynd vísindi á bak við þetta,“ segir Aðalsteinn.

Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, segir endurheimt votlendis vísindalega réttlætanlega aðgerð og nægar upplýsingar séu til staðar til að menn viti að hún skili árangri. Stjórnmálaflokkarnir hafi hins vegar einfaldað málið of mikið.

„Það þarf að minnsta kosti að tryggja það ef það er ráðist í þetta á stórum skala að það fylgi því stórauknar rannsóknir og aðgerðir til að staðfesta árangurinn. Þetta er ekki bara að moka ofan í skurð og  ekkert annað sem kostar lítið,“ segir hann.

Ekkert vitað um vilja landeigenda

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segir að starfsmönnum Skógræktarinnar hafi fundist svolítið undarlegt þegar farið var að tala um endurheimt votlendis sem aðgerð í loftslagsmálum, ekki vegna þess að þeir væru á móti þeirri aðgerð, heldur vegna þess að lítið væri vitað um gagnsemi þess sem loftslagsaðgerð, til dæmis í samanburði við skógrækt.

„Okkur datt þó í hug að fyrsta skrefið yrði ef til vill að styrkja rannsóknir á afleiðingum mýrarbreytingar á losun gróðurhúslofttegunda en lítið varð um það. Undrunin jókst svo þegar farið var að fjalla um endurheimt votlendis til jafns við skógrækt og landgræðslu án þess að þekking lægi fyrir því til stuðnings. Nú er undrunarstigið komið í hámark þegar stjórnmálaflokkar einblína á endurheimt votlendis sem loftslagsaðgerð og nefna varla skógrækt eða landgræðslu á nafn. Og enn er þekkingin á sama lága stigi og þegar byrjað var að tala um endurheimt votlendis,“ segir skógræktarstjóri.

Frétt Mbl.is: Hófust handa við verkið á Bessastöðum

Sjálfur segist Þröstur trúa því að hægt sé að draga úr losun koltvísýrings með því að endurheimta tiltölulega stóran hluta þess votlendis sem hefur verið ræst fram.

„Það sem ég er vantrúaður á hins vegar er að það sé vilji á meðal landeigenda þessa lands að gera það. Bændur missa þarna beitiland. Blautar mýrar eru miklu lakara beitiland en framræst land til dæmis,“ segir hann og bendi á að engin könnun hafi farið fram á vilja landeiganda í þessum efnum.

Þá liggi heldur ekki fyrir miklar tölur um samanburð á losun koltvísýrings frá framræstu landi og losun metans úr endurbleyttu landi.

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.

Drepur umræðunni á dreif

Skógræktarstjóri gagnrýnir loftslagsumræðu á Íslandi harðlega. Fyrir liggi að hægt sé að gera tiltekna hluti eins og að rafvæða bílaflotann, binda kolefni með skógrækt og draga úr losun með öðrum hætti. Í staðinn fyrir að taka ákvarðanir um slíkar aðgerðir sé umræðunni drepið á dreif með tali um aðra hluti sem hægt sé að gera. Endurheimt votlendis sé nýjasta birtingarmynd þess.

„Það fer endalaus tími í að tala um eitthvað annað sem hugsanlega væri hægt að gera en er kannski minna borðleggjandi. Tíminn og umræðan fer öll í það en ekki að gera það sem er borðleggjandi hægt að gera. Þetta veldur því að stefnan skýrist ekkert. Það er ekkert borðleggjandi við endurheimt votlendis. Það er ekkert búið að skoða það nánar,“ segir Þröstur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert