Alveg herramannsmatur

Velt upp úr eggjarauðu og raspi og látið malla eins …
Velt upp úr eggjarauðu og raspi og látið malla eins og hálftíma í heitum ofni, segir Elís. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Kóteletturnar komu alveg óvænt inn fyrir svona tveimur árum. Þær voru svolítið dottnar úr tísku svo fyrir ekki svo löngu hefði ég ekki einu sinni reynt að vera með þær á matseðli. Svo breyttist þetta skyndilega, en ég get þó ekki svarað hvað varð þess valdandi,“ segir Elís Árnason, veitingamaður á Café Adessso í Smáralind.

„Fyrir utan hamborgara og slíkt hef ég alltaf verið með í hádeginu það sem kalla mætti heimilismat. Steiktur fiskur kemur vel út og er vinsæll og svo kóteletturnar. Margir sem hingað koma í hádeginu taka þær alltaf einu sinni í viku.“

Sunnudagsmatur í gamla daga

Í auglýsingum nú í haust, svo sem á félagsmiðlum, hefur að undanförnu sést fjölda tilkynninga um kótelettukvöld sem haldin hafa verið á vegum karlaklúbba, átthagafélaga og annarra slíkra. Þá hefur einnig farið orð af kótelettukvöldum Samhjálpar sem hefð er komin á. Þetta er alveg ný vídd í matarmenningu landans og skemmtileg tilbreyting. Matarveislur þessar koma svo væntanlega aftur inn með vorinu, en einmitt núna eru það jólahlaðborðin sem freista fólksins helst.

Kótelettur eru niðursneiddur lambahryggur og þær má matbúa á ýmsan máta. „Kótelettur í raspi voru eitt sinn sígildur sunnudags- og jafnvel jólamatur. Við unnum þær í stórum stíl þegar ég vann hjá Kjötiðnaðarstöð KEA í gamla daga. Svo kom ný kynslóð sem vildi kjötið unnið öðruvísi sem er mjög skiljanlegt. Grillkóteletturnar hafa að vísu haldið sér en nú koma þær röspuðu inn af miklum krafti,“ segir Elís sem telur þetta mjög ánægjulega þróun.

Frábærlega lystugar

Matargerðinni lýsir Elís, þaulvanur matreiðslumeistarinn, svo. „Kjötið er bragðmikið og smakkast vel eftir að stykkjunum hefur verið velt upp úr eggjarauðu og raspi og látið malla eins og í hálftíma í heitum ofni. Og svo fyllist allt af angan þegar veisluföngin eru lögð á borðið. Kótelettur eru úr fyrsta flokks lambakjöti og verða frábærlega lystugar þegar þær eru bornar fram með til dæmis nýjum kartöflum, grænum baunum, rauðkáli og smjörbráðinni feiti. Þetta er herramannsmatur og því vel skiljanlegt að þeim séu gerð góð skil og svo er bara spurning hvað dettur næst inn í óvæntum vinsældum.“

Eggjablanda og brauðmylsna

    Hráefni 12 lambakótelettur 1 egg 3 msk. mjólk 1 bolli þurr brauðmylsna nýmalaður pipar salt 75 g smjör eða smjörlíki Leiðbeiningar Kóteletturnar þerraðar, hluti af fitunni ef til vill skorinn burt, einkum af rifinu, og barðar létt með buffhamri.

Hráefni
12 lambakótelettur
1 egg
3 msk. mjólk
1 bolli þurr brauðmylsna
nýmalaður pipar
salt
75 g smjör eða smjörlíki

Leiðbeiningar
Kóteletturnar þerraðar, hluti af fitunni ef til vill skorinn burt, einkum af rifinu, og barðar létt með buffhamri. Egg og mjólk léttþeytt saman og brauðmylsnan krydduð með pipar og salti. Smjörið brætt á stórri, þykkbotna pönnu. Kótelettum velt upp úr eggjablöndunni og síðan brauðmylsnunni. Brúnaðar á báðum hliðum við góðan hita en síðan er hitinn lækkaður og kóteletturnar steiktar áfram við hægan hita í 8-10 mínútur. Snúið einu sinni. Meira smjör máski brætt á pönnunni og borið fram með. Meðlæti að vild, til dæmis sykurgljáðar kartöflur, grænar baunir, rauðkál og sósa. Uppskrift fyrir fjóra. Heimild: lambakjot.is

Lystugar og ljúfar kótelettur.
Lystugar og ljúfar kótelettur. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert