Jólarós lætur blekkjast af vorveðrinu

Jólarósin í garðinum hans Jóhanns. Jóhann minnti blaðamann tvívegis á …
Jólarósin í garðinum hans Jóhanns. Jóhann minnti blaðamann tvívegis á að rugla ekki saman jólarós og jólastjörnu, enda um tvær ólíkar plöntur að ræða. Ljósmyndari/Jóhann Pálsson

Það er hvítt og agnarsmátt; blómstrið sem gægist upp úr köldum jarðveginum í garði í Foldahverfi. Það ber latneska heitið Helleborus niger, en við köllum það jólarós. Þrátt fyrir nafngiftina er óvenjulegt að sjá glitta í blómið fyrr en á útmánuðum, en það er harðgert og stendur af sér frost og snjó.

Garðurinn sem um ræðir er í eigu Jóhanns Pálssonar, grasafræðings og fyrrverandi garðyrkjustjóra Reykjavíkur. Hann tók eftir því í gær, á fyrsta í aðventu, að jólarósin var farin að blómstra.

„Þessi tegund hefur hlotið nafn af því að sums staðar erlendis blómgast hún um jólaleytið en hér á landi hefi ég aldrei vitað til þess að hún blómgist fyrr en snemma á útmánuðum eða í fyrsta lagi í febrúar,“ sagði Jóhann í orðsendingu til mbl.is.

Blaðamaður ákvað að slá á þráðinn.

„Í heimkynnum sínum; þar sem þær eru mest notaðar um jólin, blómstra þær um þetta leyti, og ég man meðal annars eftir ákaflega fallegri sögu Selmu Lagerlöf sem fjallar um jólarósina,“ segir Jóhann, þegar hann er inntur eftir fróðleik um blómið.

Sagan sem hann vísar í heitir á frummálinu Legenden om julrosorna og birtist í sagnasafninu En saga om en saga och andra sagor, sem Nóbelsskáldið sænska gaf út árið 1908.

Saga Lagerlöf byggir á munnmælasögu um jólarósina, sem tengist fæðingu Krists. Hún er til í nokkrum útgáfum en fjallar í grunninn um unga stúlku sem langar að færa Jesú gjöf. Hún er fátæk og á ekki neitt til að færa barninu í Betlehem, fyrr en jólarós vex upp úr frosinni jörðinni. Tilurð blómstursins er mismunandi eftir útgáfum, en það verður ýmist til þegar tár stúlkunnar falla á jörðina eða fyrir tilstuðlan engils.

Jóhann segir jólarósina fremur sjaldséða hér á landi en hún blómstrar jafnan í hlýindaköflum á veturna, venjulega eftir jól.

„Svo lendir hún í alls kyns frostum og hörmungum,“ segir Jóhann og bætir við; „en klárar þetta nokkurn veginn.“

Erlendis hefur hann orðið jólarósarinnar var í fjöllum Slóveníu og í verslunum í Sviss, í aðdraganda jólahátíðarinnar.

Jólarósina í garðinum í Foldahverfi fékk Jóhann að gjöf en hún hefur verið úti í tvo vetur. Hann þakkar tíðarfarinu að hún blómstrar nú í nóvemberlok. „Það hefur einu sinni komið hörkufrost en svo hlýnar aftur og þá segir hún bara: Það er að koma vor.“

Valborg Einarsdóttir fjallaði um Helleborus niger í grein í Morgunblaðinu í desember 2007, þar sem m.a. kom fram að jólarósin væri vinsælt jólablóm víða erlendis en einnig eftirsótt garðplanta, t.d. í Danmörku og á Englandi.

Áskrifendur geta fundið umfjöllunina hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert