Leigja út óíbúðarhæft húsnæði

mbl.is/Júlíus

Eigendur sex fasteigna sem eru leigðar út sem íbúðarhúsnæði þrátt fyrir að brunavarnir séu algjörlega ófullnægjandi eru undir smásjá slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og hefur þeim verið veittur ákveðinn frestur að koma húsnæðinu í mannsæmandi horf. Að öðrum kosti verður húsnæðið innsiglað.

Fyrr í vikunni stóð til að innsigla leiguhúsnæði að Köllunarklettsvegi 4 í Reykjavík en að sögn Bjarna Kjartanssonar, sviðsstjóra forvarnarsviðs slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, hafði húsnæðið verið rýmt á síðustu stundu. 

Fórnarlömb mansals meðal íbúa í slíku húsnæði

Flestir þeirra sem neyðast til þess að leigja slíkt húsnæði til búsetu eiga ekki aðra kosti í stöðunni og hefur slökkviliðið jafnvel orðið vart við fórnarlömb mansals þegar slökkvilið og lögregla fara ásamt túlkum í eftirlit í ólöglegt leiguhúsnæði.

Fjallað var um leigu á slíku húsnæði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

Eigandi húsnæðisins að Köllunarklettsvegi hefur fengið sent bréf þar sem honum er bent á að ef slökkvilið eða lögregla verði vör við búsetu í húsnæðinu megi hann búast við lokun umsvifalaust án nokkurrar viðvörunar, segir Bjarni.

Um er að ræða ákveðin hverfi þar sem húsnæði er leigt út án heimildar og stundum húsnæði sem er algjörlega óhæft til búsetu með tilliti til brunavarna.

Bjarni tekur sem dæmi leiguhúsnæði á annarri hæð í húsi þar sem á jarðhæð er iðnaðarstarfsemi þar sem unnið er með eldfim efni. Eina leiðin út af efri hæðinni er með stiga niður á jarðhæð. Engin önnur útgönguleið er í boði, engar svalir eða neitt. 

Síðustu tvö árin hefur eldvarnareftirlit slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, með samþykki sveitarfélaga á svæðinu, eftir atvikum gert kröfur um úrbætur í slíku óleyfishúsnæði, það er húsnæði sem er leigt út sem íbúðarhúsnæði án þess að falla undir skilgreiningu á íbúðarhúsnæði. 

Krafan er gerð á eiganda húsnæðisins um úrbætur án þess að skapi honum nokkurn rétt eða réttarstöðu gagnvart sveitarfélaginu þó svo hann verði við öllum kröfum. Það þýðir að húsnæðið er enn ólöglegt sem leiguhúsnæði þrátt fyrir úrbætur á brunavörnum. 

Ástæðan fyrir því að við erum að reyna að taka harðar á þessu núna er að okkur sýnist að það sé orðið meira um það að algjörlega óíbúðarhæft húsnæði er tekið í notkun. Til að mynda milligólf úr timbri og engar eldvarnir.  

Í húsinu á Köllunarklettsvegi var um að ræða leiguhúsnæði á efri hæð þar sem löglegt iðnaðarfyrirtæki starfar á neðri hæðinni. Brunavarnir voru engar á efri hæðinni og eigandi þeirrar hæðar því að leigja fólki húsnæði sem ekki er hæft sem mannabústaður. Þrátt fyrir að slökkviliðið hafi ítrekað haft samband við eigandann hefur ekkert verið gert til þess að bæta ástandið. 

Húsnæðið getur hins vegar verið gott en brunavörnum alvarlega ábótavant og með því að gera úrbætur þar á, til dæmis með hringstiga við glugga eða svölum, er hægt að samþykkja að fólk geti búið þar án þess að stefna lífi sínu í hættu.

Bjarni segir að eldvarnareftirlitið sé farið að greina hismið frá kjarnanum þegar kemur að eftirliti með leiguhúsnæði. Í sumum tilvikum sé um að ræða húsnæði sem ekki er boðlegt og þá fá eigendur skamman tíma til þess að rýma húsnæðið og hefja úrbætur. Ekki nægi að lofa öllu fögru og láta fólk búa áfram við óviðunandi aðstæður. 

Ekki gangi hins vegar að henda íbúum umsvifalaust á götuna heldur sé reynt að tryggja að íbúar fái að minnsta kosti nokkrar vikur, jafnvel mánuði, til þess að finna sér annað húsnæði. Að sögn Bjarna er ekki lengur farið bara með miða sem hengdir eru upp í viðkomandi húsnæði þar sem tilkynnt er um komandi lokun heldur fer lögreglan með og túlkur. Reynt sé að hitta á fólkið og því greint frá því að það sé á götunni eftir tvo eða þrjá mánuði. Lögreglan hafi heimild til þess að krefja fólk um persónulegar upplýsingar, svo sem nafn og kennitölu, og þannig hægt að tryggja að allir sem búi á viðkomandi stað fái upplýsingarnar. 

Ef það kviknar í slíku húsnæði er hægt að ákæra eiganda húsnæðisins, sem ekki hefur farið að reglum varðandi brunavarnir, fyrir brot á almennum hegningarlögum því í 220 grein þeirra segir að hver sá sem í sem í ábataskyni, af gáska eða á annan ófyrirleitinn hátt stofnar lífi eða heilsu annarra í augljósan háska eigi yfir höfði sér allt að fjögurra ára fangelsi. 

Bjarni tekur hins vegar fram að þetta eigi alls ekki við alla leigusala og margir þeirra sem leigi út íbúðarhúsnæði fari að lögum í landinu.

Frétt mbl.is: Ábyrgð eigandans skýr

Frétt mbl.is: Skömmin á röngum stað

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert