Björguðu 1.107 frá drukknun

Þórir og Jóhanna voru fulltrúar Rauða krossins á Íslandi í …
Þórir og Jóhanna voru fulltrúar Rauða krossins á Íslandi í björgunarstarfi á Miðjarðarhafi Mynd/Þórir Guðmundsson

Þórir Guðmundsson og Jóhanna Jónsdóttir eru komin heim eftir þátttöku þeirra í björgunaraðgerðum á Miðjarðarhafi. Að sögn Þóris var verkefnið eitt það erfiðasta sem hann hefur tekið þátt í en hann segir þó mikilvægt að muna að í raun hafi 1107 manneskjum verið bjargað frá drukknun.

Sagt að ferðin tæki nokkra klukkutíma

Jóhanna og Þórir voru fulltrúar Rauða krossins á Íslandi í björgunarverkefnum Alþjóðasambands landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) á Miðjarðarhafi. Teymi þeirra bjargaði alls 1.107 flóttamönnum úr hafinu á tveimur vikum. „Við fundum fyrsta bátinn 13. nóvember. Það var trébátur með 28 menn frá Bangladess innanborðs. Ég spurði þá hvað það væri sem smyglararnir segðu þeim um sjóferðina og þeir sögðu að þeim væri sagt að það tæki nokkra klukkutíma að komast til Ítalíu.“

Raunin er þó allt önnur því um 500 kílómetra sjóleið er á milli Líbíu og Ítalíu. „Á þessum bátum myndu þeir aldrei ná yfir, þeir eru í raun að sigla út í opinn dauðann.“ Þórir segir að þegar mennirnir hafi komist að því að leiðin væri í raun 500 kílómetrar hafi þeir misst andlitið. „Þeir bara litu út á hafið og sögðu „úff, við hefðum verið dauðir ef þið hefðuð ekki fundið okkur“.“

Margir á uppblásnum plastbátum

Að sögn Þóris er flóttafólkið alla jafna á tvennskonar bátum, annarsvegar trébátum sem rúma um 35 manns þegar mjög þétt er setið og hins vegar uppblásnum plastbátum sem líta út fyrir að rúma um tuttugu. „[Smyglararnir] setja 150-170 manns í þessa plastbáta.“

Teymi Þóris og Jóhönnu sigldi um svæði fyrir utan líbísku landhelgina í leit að bátum. „Yfirleitt leggja þeir út á haf á kvöldin þegar þeir komast framhjá líbísku landhelgisgæslunni. Það tekur nóttina, þá eru þeir komnir út fyrir landhelgina.“ Þá er fólk mjög misjafnlega á sig komið þegar það finnst og sumir nær dauða en lífi.

„Þessi litla hnáta er eins árs og heitir Treasure, eða …
„Þessi litla hnáta er eins árs og heitir Treasure, eða dýrgripur. Móðir hennar, Naomi lagði út á Miðjarðarhafið í gúmmíbát og var komin lengst út á haf þegar þeim var bjargað í Responder skip Rauða krossins ásamt um 150 öðrum. Treasure var auðvitað lífið og sálin um borð og lét sig ekki muna um að hlaupa til útlendingsins og fá hann til að halda á sér.“ Mynd/Þórir Guðmundsson

„Síðasta björgunin er líklega eftirminnilegust. Þá komum við að uppblásnum plastbáti sem maraði í hálfu kafi. Framendinn á honum og önnur hliðin voru upp úr sjó en allt annað fyrir neðan. Botninn var fallinn saman og var á svona metra dýpi. Fólkið hékk utan í leifunum af þessum báti þegar við komum að.“

Segir Þórir að sennilega hafi tugir manna látið lífið áður en björgunarteymið kom að. „Þau höfðu verið svona tíu tíma í bátnum þegar við komum að og báturinn hafði verið [í þessu ásigkomulagi] í marga klukkutíma.“

Þá segir hann hluta hópsins vart hafa verið með lífi en að flestir hafi tekið við sér þegar þeir komu um borð í björgunarskipið. „Það var einn sem hafði drukknað. Þeir reyndu að lífga hann við strax úti á hafi í litlum björgunarbáti og héldu svo áfram þegar þeir komu á skipið til okkar en það tókst ekki.“

Aðkoma ríkis og almennings mikilvæg

Leiðangursstjórinn í teymi Þóris og Jóhönnu var frá Erítreu og hafði sjálfur komið þessa leið yfir hafið. „Hann var afskaplega glaður þegar hann heyrði að það væri Íslendingar í teyminu. Hann sagðist áður hafa hitt Íslendinga en það var þegar nefndin sem samdi nýja útlendingafrumvarpið heimsótti Ítalíu. Hann hafði rætt við Óttarr Proppé og hans föruneyti þegar þau heimsótti Ítalíu. Hann hafði mjög jákvæða mynd af Íslandi og hafði þótt þessir menn mjög tilkomumiklir.

Þórir telur flesta Íslendinga geta tengt við hafsnauðina vegna sögu landsins. „Jafnvel þó að það hafi orðið miklar framfarir á Íslandi hvað varðar sjóbjörgun og aðstæður í skipum þá eru mjög margir sem muna eða eiga foreldra eða afa og ömmur sem muna hvernig þetta var þegar tíu manns á ári dóu hér ofan í hafið.“  Þá segir hann það skipta miklu máli fyrir starfsemina og björgunarstarfsmennina sjálfa að almenningur styrki og styðji við hjálparstarfið. „Það skiptir auðvitað mjög miklu máli að finna að fólk hefur áhuga á því sem við erum að gera og fylgist með.“

Hægt er að styrkja starf Rauða krossins með því að hringja í söfnunarsímanúmerin 904-1500 fyrir 1500 krónur, 904-2500 fyrir 2500 krónur og 904 5500 fyrir 5500 krónur.

Hér að neðan eru myndir úr safni Þóris og lýsingar hans á myndefninu.

„Björgunaraðgerðir úti á rúmsjó. Responder skip Rauða krossins er með …
„Björgunaraðgerðir úti á rúmsjó. Responder skip Rauða krossins er með tvo öfluga báta, sem eru virkjaðir í björgunaraðgerðum. Allt kapp er lagt á að fólk falli ekki í sjóinn áður en það hefur fengið björgunarvesti, því flestir eru ósyndir.“ Mynd/Þórir Guðmundsson
„Áður en eiginleg björgun hófst var björgunarvestum komið til allra …
„Áður en eiginleg björgun hófst var björgunarvestum komið til allra í bátnum. Síðan var fólk ferjað yfir, eitt í einu.“ Mynd/Þórir Guðmundsson
„Í þessum báti voru óvenjufáir flóttamenn. Síðar kom í ljós …
„Í þessum báti voru óvenjufáir flóttamenn. Síðar kom í ljós að margir höfðu fallið útbyrðis um nóttina.“ Mynd/Þórir Guðmundsson
„Jóhanna Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur Rauða krossins gefur flóttamanni heilsufarsskoðun.“
„Jóhanna Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur Rauða krossins gefur flóttamanni heilsufarsskoðun.“ Mynd/Þórir Guðmundsson
„Þessi litli patti er ekki nema mánaðargamall og heitir Desmond. …
„Þessi litli patti er ekki nema mánaðargamall og heitir Desmond. Mamma hans Susan kemur frá Nígeríu en hefur verið í Líbíu undanfarið eins og svo margir sem þangað leituðu þegar vantaði vinnuafl. Nú eru árásir á innflytjendur daglegt brauð í Líbíu, landið í upplausn, hatrammar skærur milli fylkinga og innflytjendum er ekki lengur vært þar. Þá eru tveir möguleikar í stöðunni; að fara heim yfir stórhættulega Sahara eyðimörkuna eða borga smyglurum til að komast yfir Miðjarðarhafið.“ Mynd/Þórir Guðmundsson
„Tekið á móti ungum drengi um borð.“
„Tekið á móti ungum drengi um borð.“ Mynd/Þórir Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert