Íslenskt samfélag að breytast

Ferðamönnum fjölgar sífellt á Íslandi, ekki síst á vetrarmánuðum.
Ferðamönnum fjölgar sífellt á Íslandi, ekki síst á vetrarmánuðum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslenskt samfélag samanstendur ekki lengur af íbúum einum saman, heldur íbúum og tímabundnum íbúum – ferðamönnum – hverju sinni. Þetta kom fram í máli Ólafar Ýrar Atladóttur, ferðamálastjóra, á ferðamálaþingi í Hörpu í dag.

Ólöf sagði hvorn hóp vera með sínar þarfir. Áætlanagerð og innviðir hins opinbera þurfi að taka mið af því.

Benti hún á, máli sínu til stuðnings, að fyrir nokkru síðan hefði verið ljóst að 20% fleiri ferðamenn væru búnir að koma hingað til lands í ár, saman borið við allt síðasta ár.

„Þó það kæmu bara fjórir ferðamenn það sem eftir er árs, er liklegt að fjölgunin slagi upp í 30% frá síðasta ári,“ bætti Ólöf við.

Margir láta óblíða veðráttu ekki aftra sér frá því að …
Margir láta óblíða veðráttu ekki aftra sér frá því að sækja Ísland heim. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ólíkir bændur

Þessari áskorun þurfi að mæta, með lausnir og jákvæðni að vopni. Rifjaði hún upp sögu sem hún heyrði eitt sinn um tvo bændur á Norðurlandi.

„Annar þeirra gat ekki á heilum sér tekið í góðu veðri, þar sem það myndi jú alltaf á endanum versna. Hinn bóndinn tók hins vegar vondu veðri með stóískri ró, enda hefði „aldrei gjört svo vont veður, að það hefði ekki einhvern tíma batnað:“

Sagði Ólöf að hugarfar síðari bóndans væri eflaust betra að viðhafa, og að hún hefði oft haft bændurna tvo í huga við störf sín fyrir ferðaþjónustuna.

Til að undirstrika mikilvægi þess, að hlúa að ferðaþjónustu á Íslandi, benti Ólöf á að hún stæði undir stærstum hluta útflutnings vara og þjónustu hér á landi, og hafi tekið fram úr öðrum útflutningsliðum fyrir þremur árum.

Frá árinu 2010 hafi þá störfum í ferðaþjónustu fjölgað um 36,7%, á sama tíma og öðrum störfum hafi aðeins fjölgað um 6%.

Ferðamenn á Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi.
Ferðamenn á Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vörubílar og steypa

Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar Ferðamála, sagði engan vafa vera á því að fjölgun ferðamanna væri að breyta íslensku samfélagi, og talsvert fljótt meira að segja.

„Samfélag er meira en bara leiktjöld fyrir ferðaþjónustu. Uppbygging hennar á að endurspegla þarfir og óskir íbúa en ekki fara þvert á þær,“ sagði Guðrún, sem rannsakað hefur viðhorf Íslendinga til ferðamanna að undanförnu.

Ærin verkefni fylgi þessum breytingum en þetta væri ekkert sem við þekktum ekki áður.

„Þetta eru vörubílar, þetta er steypa,“ sagði Guðrún og benti að lokum á að framkvæmdirnar kæmu öllum til góða, þótt ferðamenn væru hvatinn að þeim.

„Það er grundvöllur til jákvæðni, og við þurfum bara að halda áfram að byggja upp þekkingu um þessa atvinnugrein hér á landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert