Sagði upp á kynningarfundinum

Úr skólastarfi.
Úr skólastarfi. Eggert Jóhannesson

„Í þessum samningum felst engin framtíðarsýn. Ég hélt að sveitarfélögin gerðu sér grein fyrir því hvað staðan er alvarleg, að það þyrfti meiri hækkanir en hér er boðið upp á. Það var misskilningur.“ Þetta segir Ragnar Þór Pétursson, grunnskólakennari í Norðlingaskóla í Reykjavík og trúnaðarmaður kennara í þeim skóla. 

Hann situr nú kynningarfund samninganefndar Félags grunnskólakennara á kjarasamningi sem skrifað var undir í gærkvöldi við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Trúnaðarmenn í grunnskólum Reykjavíkur sitja fundinn og þar er farið yfir helstu atriði samningsins sem eru m.a. 7,3% hækkun á morgun, 1. desember, og 3,5% hækkun 1. mars, eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Þá kveða samningarnir á um 204.000 króna eingreiðslu 1. janúar fyrir þá sem eru í 100% starfi og er henni ætlað að bæta fyrir þá launahækkun sem kennarar hafa orðið af á þeim tíma sem þeir hafa verið samningslausir.

Að auki verður öll gæsla, eins og t.d. í frímínútum, greidd í yfirvinnu frá og með morgundeginum. Að sögn Ragnars felur samningurinn einnig í sér bókanir um endurskoðun á núverandi skólastefnu, Skóla án aðgreiningar, sem hefur verið nokkuð gagnrýnd.  

Ragnar Þór Pétursson.
Ragnar Þór Pétursson. mbl.is/Kristinn

Samningurinn gildir til eins árs, til loka nóvember 2017 og stefnt er að því að atkvæðagreiðsla um hann hefjist á mánudaginn, 5. desember og að henni ljúki viku síðar, 12. desember. Ragnar segir þennan skamma samningstíma fela í sér ákveðinn varnarsigur. „Það getur vel verið að þetta sé upphafið að einhverju betra, að menn ætli að nota samningstímann í að vinna vel og gera betur.“

Ískyggilega líkur fyrri samningum

Hann segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með samninginn. „Hann er ískyggilega líkur þeim samningum sem við höfum þegar fellt tvisvar,“ segir hann. 

Ragnar segist ekki geta spáð fyrir um hvort samningurinn verði samþykktur eða ekki, hann verður kynntur almennum kennurum á næstu dögum.  „Það verður ekki auðvelt að koma þessum samningi í gegnum atkvæðagreiðslu. En það er ljóst, að ef þessi verður felldur þá erum við í slæmum málum með þrífellda samninga.“

Ólíklegt að uppsagnir gangi til baka

Yfir eitthundrað grunnskólakennarar, aðallega af suðvesturhorni landsins, hafa sagt upp störfum undanfarnar vikur og er Ragnar einn þeirra. Spurður um hvort hann muni draga uppsögnina til baka í kjölfar þessa samnings segir hann það ólíklegt. „Ég hef engar forsendur til þess og ég þekki engan kennara, sem þegar hefur sagt upp, sem ætlar að draga það til baka vegna þessa samnings. Það er ekkert í honum sem stöðvar flótta kennara úr skólunum.“

Og enn bætist í hóp þeirra sem hafa sagt upp, því Ragnar segir að á fundinum hafi einn trúnaðarmaður staðið upp og tilkynnt uppsögn sína. „Það er mikil vantrú á ástandið meðal kennara.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert