Skoða að fá utanaðkomandi vottun

Kristinn Gylfi Jónsson segir Brúnegg með sitt á hreinu í …
Kristinn Gylfi Jónsson segir Brúnegg með sitt á hreinu í dag og að fyrirtækið biðjist afsökunar á frávikum liðins tíma. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eggjaframleiðslufyrirtækið Brúnegg íhugar nú að fá utanaðkomandi aðila til að votta framleiðslu fyrirtækisins sérstaklega. „Við erum að skoða hvaða valkostir eru til staðar,“ segir Kristinn Gylfi Jónsson sem á fyrirtækið ásamt Birni bróður sínum.

Verið er að skoða að fá annaðhvort erlenda  sérfræðinga til að votta framleiðsluna, eða að byggja vottunina á erlendum stöðlum í sátt við innlenda aðila.  „Við erum að skoða ýmsa kosti til að geta aukið gegnsæi í okkar framleiðslu.“

Brúnegg rær lífróður þessa dagana eftir að Kastljós fjallaði á mánudag um aðbúnað hænsna á búum fyrirtækisins á Teigi í Mosfellsbæ og Stafholtsveggjum í Borgarfirði. Kristinn Gylfi segir allflesta viðskiptavini Brúneggja hafa stöðvað viðskipti við fyrirtækið í augnablikinu, einhverjir séu þó enn í viðskiptum við Brúnegg og á næstu dögum muni nokkrar þeirra verslana sem selt hafa egg frá fyrirtækinu koma í heimsókn og skoða aðstöðuna. Klukkuverslanir 10-11 eru meðal þeirra fyrirtækja sem hafa tilkynnt að þær hyggist skoða aðstöðuna.

Önnuðu ekki eftirspurn þar til Kastljósþátturinn var sýndur

„Okkar líf núna snýst um það hvort okkur takist að sýna fram á trúverðugleika þannig að menn vilji hefja viðskipti á ný. Það reynir á það á næstu dögum,“ segir Kristinn Gylfi er hann sýnir blaðamanni mbl.is og ljósmyndara pökkunaraðstöðu og tvö varphólf á Teigi.

Hólf 7 á Teigi. Nægt rými var fyrir hænurnar í …
Hólf 7 á Teigi. Nægt rými var fyrir hænurnar í því hólfi er blaðamaður og ljósmyndari heimsóttu Brúnegg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við munum sjá núna á næstu dögum hvort þeir vilji endurskoða afstöðu sína til viðskipta eftir að við sýnum þeim hvað er í gangi.“

Þau egg sem tekin hafa verið úr sölu í verslunum frá því í gær munu koma aftur til Brúneggja. „Það er lítið byrjað, en þau munu koma aftur til okkar,“ segir Kristinn Gylfi og bætir við að ekki sé enn búið að ákveða hvað verði gert við þau. „Við önnuðum ekki eftirspurn þangað til þetta kom upp, þannig að við vorum með alveg ný egg í búðunum.“ Hann vonast þó til að ekki komi til þess að það þurfi að farga eggjunum.

Gerð athugasemd við loftræstingu

Kristinn Gylfi sýnir blaðamanni og ljósmyndara fyrst inn í hólf 7 á Teigi, þar sem rúmt virðist vera um hænurnar, gólfin þurr og yfir litlu að kvarta varðandi aðbúnað, þótt húsið sé gamalt. „Svona eru öll okkar hús,“ sagði Kristinn Gylfi og bendir ljósmyndara á hænu sem er í rykbaði.

Nokkuð þrengra virðist vera um hænurnar í hólfi 5, þótt Kristinn Gylfi fullyrði að þær séu jafnmargar. „Það getur verið að þær séu komnar úr varpkössunum og séu allar frammi,“ segir hann þegar blaðamaður nefnir fjöldann. „Hér erum við með níu fugla á fermetra og uppfyllum reglur Matvælastofnunnar (MAST).“

Þrengra virtist vera um hænunar í hólfi 5 á Teigum. …
Þrengra virtist vera um hænunar í hólfi 5 á Teigum. Kristinn Gylfi fullyrðir þó að þær séu jafnmargar og í hólfi 7, en mögulega hafi þær allar lokið varpi og verið komnar fram þegar myndin var tekin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mun sterkari ammoníaklykt tekur sömuleiðis á móti blaðamanni og ljósmyndara í hólfi 5 en hólfi 7 og segir Kristinn Gylfi þetta vera dæmi um vanda sem verið sé að vinna í. „Það er ekki óeðlilegt að það sé lykt í griphúsum,“ segir hann.

Dýralæknir á vegum MAST hefur heimsótt Teig í tvígang í ár og eina athugasemdin sem gerð hefur verið að sögn Kristins Gylfa er sú að bæta þurfi loftræstinguna til að ná niður ammoníaksgildum. „Það er verið að vinna í þeim frávikum og ég tel að það takist,“ segir hann. Bæta eigi loftræstinguna í húsunum. „Þetta erum við að vinna í samstarfi við MAST,“ bætir hann við.  

Reglubundu eftirliti er einnig lokið á Stafholtsveggjum í ár. „Þar voru frávik hefur verið leyst úr,“ segir Kristinn Gylfi.

Frávik liðins tíma

Einnig á að loka tveimur elstu húsunum á Teigi, þar sem í dag eru hólf 8 og 9. Spurður hvort hægt sé að fá líta þar inn líka segir hann það ekki ganga þar sem verið var slátra fuglunum.

Hænur Brúneggja verpa nokkur þúsund eggjum á dag. Fyrirtækið annaði …
Hænur Brúneggja verpa nokkur þúsund eggjum á dag. Fyrirtækið annaði ekki eftirspurn áður en umfjöllun Kastljóss var sýnd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann hafnar því hins vegar að slátrunin hafi nokkuð með Kastljósþáttinn að gera. „Nei það stóð til að gera þetta. Við höfum starfsleyfi á öllum okkar búum í dag. Það var villandi við þessar myndbandsupptökur sem voru sýndar að það kom út eins og þetta væri ástandið á okkar búum í dag og það finnst okkur miður. Þetta eru frávik liðins tíma.  Við erum með okkar hluti í lagi í dag og erum með fullt leyfi til að selja okkar afurðir.“

Fimm hólf eru á Teigi og verið er að leggja tvö þeirra niður og með því verða 450 fm af húsnæði teknir úr umferð og þess í stað verður tekið í notkun nýtt húsnæði í Brautarholti á Kjalarnesi. Kristinn Gylfi segir að fyrir Kastljósþáttinn hafi staðið til að stækka fyrirtækið með nýja húsinu. „Nú vitum við hins vegar ekkert hvort það er framtíð í fyrirtækinu,“ segir hann og kveðst ekki vita hvað muni gerast næst.

Nýju húsin í Brautarholti hafa enn ekki verið tekin í …
Nýju húsin í Brautarholti hafa enn ekki verið tekin í notkun, en til stóð að auka umsvif fyrirtækisins með þeim. Kristinn Gylfi segir nú óvíst að svo verði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vonast til að endurheimta traust

„Ég vona að við náum að fá kaupendur og viðskiptavini til að sjá að aðstaðan er í lagi hjá okkur og að við biðjumst afsökunar á því sem hefur komið upp í liðinni tíð. Við vonumst líka til þess að okkar vörur geti endurheimt eitthvað af því trausti sem var til staðar og að þær komist aftur í sölu.“

Það sé hins vegar viðskiptavinanna og ekki síst neytenda að meta það. „Þetta getur tekið langan tíma og við vitum ekkert hvort að það tekst, en við ætlum að reyna. Við erum með mikið undir og við ætlum að reyna eftir bestu getu.“

Sérstök renna er fyrir hænunar til að komast niður í …
Sérstök renna er fyrir hænunar til að komast niður í sandbaðið í nýju húsunum að Brautarholti. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert