8 á sjúkrahús eftir bruna í Reykjanesbæ

Eldur kom upp á tveimur stöðum í fjölbýlishúsi við Hafnargötuna í Reykjanesbæ í nótt. Farið var með átta manns á sjúkrahús til meðhöndlunar vegna brunasára og hugsanlegrar reykeitrunar.

Það var rétt fyrir klukkan þrjú í nótt sem tilkynnt var um eldinn, sem kviknað hafði í þvottahúsi og stigagangi hússins. Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum var húsið rýmt og farið var með átta manns á sjúkrahús til meðhöndlunar vegna brunasára og hugsanlegrar reykeitrunar. Rauði krossinn var þá kallaður út og farið var með hinn hluta hópsins í fjöldahjálparstöðina á Iðuvöllum.

„Þetta leit ekki vel út,“ sagði lögreglumaður á vakt í samtali við mbl.is. Greiðlega gekk að slökkva eldinn, en töluverðar skemmdir urðu á húsinu ekki hvað síst vegna reyksins og var enn unnið að reykræstingu um sexleytið.

Um 30 manns búa í húsinu og er hluti íbúa fjölskyldur úr hópi hælisleitenda sem dvelja í húsinu á vegum Reykjanesbæjar.

Eldsupptök eru enn ókunn, en von er á tæknideild lögreglunnar á staðinn nú í morgun til að rannsaka málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert