Geta ekki setið aðgerðalausir

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum einfaldlega hist eins og forsetinn í raun hvatti okkur öll til þess að gera. Þetta fór fljótlega í þann farveg að Bjarni hóf samræður við Vinstri-græn og þá auðvitað töldum við okkur líka þurfa að bera saman bækur okkar enda vorum við mörg eða öll þeirrar skoðunar að þessi slit hafi verið ótímabær. Það var kannski ekkert endilega rangt að þessi slit hafi orðið á sínum tíma en síðan sáu menn fljótlega upp úr því að þetta hafi ekki verið fullreynt.“

Þetta segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is en hann hefur rætt við forystumenn Pírata, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar um mögulegt samstarf flokkanna. Upp úr formlegum stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, slitnaði í síðustu viku. Logi hefur lýst þeirri skoðun sinni að það hafi verið ótímabært og Píratar hafa tekið undir það. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín eiga nú í óformlegum viðræðum.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, hefur lýst flokk sinn reiðubúinn að stýra nýjum stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna fimm út frá nýstárlegri nálgun. Fyrri viðræður hafi verið fyrst og fremst á forsendum stefnuskrár VG. Þær viðræður strönduðu á ágreiningi á milli VG og Viðreisnar einkum um skattamál. Spurður hvort hann sé sammála gagnrýni Pírata segir Logi verkstjórn Katrínar hafa verið góða en hugsanlega mætti nálgast málin á annan hátt.

Lengst á milli Viðreisnar og VG í ákveðnum málum

„Ég hafði ekkert út á þetta vinnulag að setja í sjálfu sér. Það er alltaf þannig með allt að það má bæta allt. Það er auðvitað rétt hjá Birgittu að hvert okkar fimm horfir náttúrulega á heiminn frá sínum hóli og hugsanlega er allavega ein leið sem mætti skoða út frá miðjunni og síðan frá hægri og vinstri. Það getur vel verið að það hefði gagnast en mér fannst Katrín standa sig afskaplega vel í þessu og það var ekkert út á það að setja,“ segir hann.

Logi leggur áherslu á að viðræður Samfylkingarinnar við Pírata, Viðreisn og Bjarta framtíð nú séu óformlegar og einfaldlega hugsaðar sem undirbúningur fyrir framhaldið hvert sem það verður. Til að mynda ef Sjálfstæðisflokkurinn og VG næði saman og flokkarnir yrðu saman í stjórnarandstöðu. „En það má alltaf sjá sig um hönd þegar menn hafa hugsað málið og koma aftur að borðinu og það er það sem okkur langar að gera núna. Allavega við fjögur.“

Flokkarnir fjórir geti ekki setið aðgerðalausir „á meðan það er einhver störukeppni í gangi á milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri-grænna. Við þurfum náttúrulega bara að nota tímann og þetta er góður undirbúningur undir þingstörfin í vetur ef það færi nú svo að það yrði mynduð stjórn án okkar allra,“ segir Logi. Stutt sé á milli þessara flokka í mörgum málum en í einhverjum málum sé hins vegar ljóst að lengst sé á milli VG og Viðreisnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert