Hvaðan lagði reykinn?

Mynd Dagnýjar þar sem má sjá reyk stíga upp úr …
Mynd Dagnýjar þar sem má sjá reyk stíga upp úr kísilverksmiðjunni. Facebook/Dagný Alda Steinsdóttir

Þykkan reykjarmökk virtist leggja úr kís­il­verk­smiðju United Silicon í Reykjanesbæ í gær. Myndum þess efnis var dreift á Facebook en málið virðist að einhverjum hluta á misskilningi byggt.

„Þetta mun hafa komið úr síldarverksmiðjunni sem er þarna fyrir neðan. Þeir voru að skipta um olíu,“ segir Kjartan Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, í samtali við mbl.is. Ekki hafi því verið um að ræða mengun frá kísilverksmiðjunni í það skipti.

Þetta fékkst staðfest hjá verksmiðjustjóra Síldarvinnslunnar. Smáreykur hefði komið upp í stutta stund en að öðru leyti vildi hann ekkert tjá sig um málið.

Reykjarmökinn lagði frá síldarverksmiðjunni.
Reykjarmökinn lagði frá síldarverksmiðjunni. Ljósmynd/Aðsend

Talsvert hefur verið fjallað um útblásturinn sem kemur úr einum af fjórum ofnum kísilverksmiðjunnar sem verið er að taka í notkun. Kjartan segir að mengunin fari minnkandi:

Þetta er ekki búið en það hefur dregið verulega úr þessu.“

United Silicon sendi frá sér yfirlýsingu í síðustu viku en þar kemur fram að mesti reykurinn sem hafi myndast hafi komið fram vegna ferils sem sé sett af stað við gang­setn­ingu verk­smiðjunn­ar. 

Kjartan segir að þetta hafi ekki gengið eins hratt fyrir sig og vonast hafa verið eftir. „En þetta er að lagast.“

Eins og þurfi að sleppa út annað slagið

Dagný Alda Steins­dótt­ir, vara­bæj­ar­full­trúi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og óháðra og vara­formaður Nátt­úru­vernd­ar­sam­taka Suðvest­ur­lands, bendir á að hún hafi tekið mynd af kísilverksmiðjunni um 40 mínútum eftir að reykjarmökkinn lagði frá síldarverksmiðjunni. Ekki sé um að villast að reyk hafi lagt frá verksmiðju United Silicon.

„Það var eins og þeir hefðu hleypt menguninni út. Það kemur ský og verður hálf þokukennt í kringum verksmiðjuna. Það er ekki frá síldarverkmiðjunni,“ segir Dagný. „Ég er í Vesturbænum og sé Helguvík héðan. Um kvöldið fór fólk aftur að kvarta yfir þessari súru reykjarlykt. Þá erum við að fá vestanáttina sem blæs inn í bæinn.“

Dagnýju þykir útblásturinn ekki hafa minnkað mikið. „Nei, langt því frá. Ég hef á tilfinningunni að þeir þurfi að sleppa út annað slagið.“

Áður hafði Dagný bent á að þó að meng­un­in hefði ekki farið yfir viðmiðun­ar­mörk Um­hverf­is­stofn­un­ar þá væru loft­gæðamæl­arn­ir sem mældu hana all­ir á svo­nefndu þynn­ing­ar­svæði verk­smiðjunn­ar þar sem viðmiðun­ar­mörk­in væru mun hærri. Úr því verður bætt á næstu dögum.

„Bæjarráð fundaði í morgun með Umhverfisstofnun og setti þrýsting á hana að setja upp mæla í byggð. Það var samþykkt og verður farið í það eins fljótt og auðið er.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert