Norðlenska hlýtur gæðavottun

Tekið til hendi við sauðfjárslátrun í sláturhúsi Norðlenska. Fyrirtækið hefur …
Tekið til hendi við sauðfjárslátrun í sláturhúsi Norðlenska. Fyrirtækið hefur nú fengið gæðavottunarstaðalinn ISO/FSSC 22000. mbl.is/Skapti

Framleiðslufyrirtækið Norðlenska hefur hlotið gæðavottunarstaðalinn ISO/FSSC 22000 frá vottunarstofunni SAI Global. Staðallinn er matvælaöryggisstaðall og nær vottunin yfir báðar kjötvinnslur fyrirtækisins og sláturhús Norðlenska, á Húsavík og Akureyri.

Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það sé Norðlenska afar dýrmætt að hafa hlotið ISO/FSSC 22000 vottunina. Hún er mikilvægur þáttur í gæða- og öryggismálum og fyrirtækið hafi það að markmiði að vinna stöðugt að því að bæta árangur sinn í þeim hluta framleiðslunnar. Þá hafi gæðakröfur innlendra og erlendra viðskiptavina aukist á undanförnum árum og vottunin sé þáttur í því að verða við þessum auknu kröfum.

Framleiðsluferli á kjötvöru er í mörgum tilfellum mjög langt og nær frá slátrun á gripum til afhendingar á fullunninni matvöru til neytenda. „Við höfum því góða yfirsýn yfir allt framleiðsluferlið, í því felast mikil tækifæri fyrir Norðlenska. Staðallinn aðstoðar okkur við að áhættugreina allt framleiðsluferlið, frá því gripur er sóttur til bónda og þar til vara er afhent til neytenda,“ er haft eftir Báru Eyfjörð Heimisdóttur, gæðastjóra Norðlenska.  Gæðakerfið geri fyrirtækið hæfari til skila neytandanum öruggri gæðavöru. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert