Aðgerðarþjarki notaður við ristilaðgerðir

Aðgerðarþjarkinn var notaður í fyrsta skipti hér á landi við …
Aðgerðarþjarkinn var notaður í fyrsta skipti hér á landi við hlutabrottnám á ristli nú í vikubyrjun. Ljósmynd/Landspítalinn

Nýtt skref í notkun aðgerðarþjarka í skurðaðgerðum á Íslandi var stigið nú í vikubyrjun, þegar aðgerðaþjarki var notaður við hlutabrottnám á ristli. 

Tvær slíkar aðgerðir voru framkvæmdar af ristilskurðlæknunum Helga Kjartani Sigurðssyni og Jórunni Atladóttur á Landspítala nú í vikubyrjun, en Niels Thomassen, ristilskurðlæknir frá Danmörku og sérfræðingur í notkun aðgerðarþjarka í ristilaðgerðum, var viðstaddur aðgerðirnar.

Aðgerðarþjarki er til á helstu sjúkrahúsunum í nágrannalöndunum og hefur notkun hans í ristil- og endaþarmsaðgerðum aukist mikið undanfarin ár og með góðum árangri, að því er segir í fréttatilkynningu frá Landspítalanum. Stefnt er að aukinni notkun þjarkans í kviðarholsaðgerðum á spítalanum. 

Aðgerðarþjarki Landspítalans hefur verið í notkun frá því í febrúar í fyrra. Aðgerðaþjarkinn hefur nú þegar verið notaður við aðgerðir innan þvagfæraskurðlækninga, kvenlækninga, barnaskurðlækninga og hjartaskurðlækninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert