„Ekki sömu samtölin aftur og aftur“

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta …
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Ljósmynd/Pressphotos

„Þetta var góður fundur, eins og alltaf. Við bara fórum aðeins yfir stöðuna, ræddum málin. Svona að reyna að átta okkur á því hvert við erum komin,“ sagði Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, eftir að hann hafði fundað með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á forsetaskrifstofunni við Sóleyjargötu í Reykjavík.

Forystumenn stjórnmálaflokkanna hefðu rætt saman undanfarnar vikur og þó að ekki væri komin ríkisstjórn hefðu þær viðræður þroskast. „Við erum öll orðin aðeins með opnari augu fyrir því sem þarf til þess að láta þetta ganga.“ Spurður hvort hann teldi fimm flokka stjórn raunhæfari möguleika nú en áður sagðist hann telja best að vera með sem minnstar yfirlýsingar.

Varðandi næstu skref sagði Óttarr að þau hlytu að vera áframhaldandi samtal. „Ég reikna frekar með því að það gætu verið, ja, vonandi einhverjar nýjar útgáfur af samtölum. Ekki sömu samtölin aftur og aftur.“ Spurður hversu lengi hann teldi að tilraunir til stjórnarmyndunar gætu staðið í viðbót sagði hann að fyrir fjórum vikum hefði hann ekki grunað að eftir fjórar vikur væri ekki komin ríkisstjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert