Engin mengun af flugvélinni

Flugvélin á veginum þar sem hún nauðlenti í Heiðmörk.
Flugvélin á veginum þar sem hún nauðlenti í Heiðmörk. mbl.is/Árni Sæberg

Vatnsforði borgarinnar getur beðið mikinn skaða, leki olía í jarðveg við vatnsverndarsvæðið í Heiðmörk. Þetta segir Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.

Flugmaður neyddist fyrr í dag til að nauðlenda flugvél sinni þar og gleðst Árný yfir því að hann hafi lent heilu og höldnu.

Segir hún að margir geri sér þó ekki grein fyrir mikilvægi og viðkvæmni svæðisins, og nefnir meðal annars þyrluferð ungstirnisins Justins Biebers, þar sem hann hafði viðkomu í Heiðmörk.

„Það kom voða krúttleg frétt og þetta þótti svo krúttlegt allt saman. Á meðan sortnaði manni bara fyrir augum,“ segir hún, þó létt í bragði.

Árný fór á vettvang með slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eftir hádegi til að athuga aðstæður. Reyndist engin mengun hafa orðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert