Hækki útsvar vegna kjarasamninga

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og borgarfulltrúi.
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og borgarfulltrúi. mbl.is/Ómar

Sveitarfélögin þurfa að greiða tæpa fimm milljarða króna á ári vegna launakostnaðar kennara, samþykki kennarar nýgerða kjarasamninga. Samningurinn var kynntur sveitarstjórnarmönnum í gær. Sveitarfélög verða að hagræða í rekstrinum og skera niður til að standa straum af kostnaðinum. 

„Þetta verður gert með því að forgangsraða og skera niður í þau verkefni sem ekki eru lögbundin,“ segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann bendir á að ýmis sveitarfélög þurfi að skoða möguleika á að skera niður til dæmis í menningarstarfsemi og íþróttum. Einnig þurfi þau að skoða mögulegar uppsagnir starfsfólks sem ekki sinnir lögbundum verkefnum, svo fátt eitt sé nefnt.   

„Það kveinkar sér enginn undan því að forgangraða í þágu grunnskólans,“ segir Halldór og tekur fram að sveitarfélögin „vilji gera vel við kennara.“

Samband íslenskra sveitarfélaga á eftir að samþykkja samningana og verður það gert líklega í næstu viku. 

Kjarasamningarnir koma misvel niður á sveitarfélögum og fer það eftir stærð þeirra. Í mörgum tilfellum koma standa stærri sveitarfélög betur að vígi en þau sem minni eru. Þegar sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskólanna árið 1996 var stofnaður jöfnunarsjóður. Í þann sjóð geta meðal annars minni sveitarfélög, sem eru með óhagkvæman rekstur, sótt jöfnunarstyrk. 

„Minni sveitarfélög eiga að ráða við þetta. Öll þurfa þau að takast á við nýja forgangsröðun til að takast á við þetta,“ segir Halldór spurður hvort kjarasamningurinn komi verr við minni sveitarfélögin. Meiri hagræðingarmöguleikar eru hjá stærstu sveitarfélögunum, að sögn Halldórs. í þessu samhengi vísar hann til Reykjavíkurborgar, sem skilaði afgangi í rekstaráætlun. Halldór er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. 

Fasteignagjöld hækki og útsvar

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segir að mögulega muni fasteignagjöldin og útsvarið hækka vegna kostnaðarauka fyrir Vestmannaeyjar. Kjarasamningurinn felur í sér 50 milljóna kostnaðarauka fyrir Vestmannaeyjar. 

Elliði býst ekki við öðru en að sveitarfélögin muni samþykkja samninginn.  

Bæjarstjóri Vestmannaeyja segir að úrsvar verði líklega hækkað og fasteignagjöld.
Bæjarstjóri Vestmannaeyja segir að úrsvar verði líklega hækkað og fasteignagjöld. Morgunblaðið/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert