Harmar niðurstöðu í máli Salbjargar

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins.
Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins.

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, segist harma niðurstöðu Hæstaréttar í máli Salbjargar Óskar Atladóttur, en með dómnum sem féll í gær fær Salbjörg ekki að færa fjármuni sem notaðir eru við skammtímavistun yfir í beingreiðslusamning. Með því þarf hún að flytja vikulega milli eigin heimilis og skammtímavistunarinnar, en Salbjörg þarfnast aðstoðar við allar athafnir daglegs lífs.

Frétt mbl.is: Tapaði máli og þarf áfram að flytja 52 á ári

Í tilkynningu frá Öryrkjabandalaginu kemur fram að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hafi verið fullgiltur hér á landi á dögunum. Vísað er til þess að í honum segi að fatlað fólk eigi rétt á sjálfstæðu lífi og jafnframt rétt á því að „velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra.“ Þannig séu aðildarríki skuldbundin til þess að grípa til ráðstafana þannig að fatlað fólk geti nýtt sér rétt sinn.

Ég harma því niðurstöðu Hæstaréttar frá því gær í máli Salbjargar, sem gerði þá sjálfsögðu kröfu að fá að velja sér búsetustað og gerði einnig þá kröfu að tryggja sitt einkalíf eins og aðrir,“ segir Ellen í tilkynningunni. Segir hún að Alþingi verði að grípa til tafarlausra ráðstafana til þess að réttur fatlaðs fólks verði að veruleika. „Þetta, ásamt því að lögfesta Samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður að vera forgangsmál næstu ríkisstjórnar,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert