Keyrði á brott án umráðamanns bílsins

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um hálffimmleytið í morgun að bíl hefði verið stolið frá bensínstöð N1 við Hringbraut. 

Umráðamaður bifreiðarinnar, sem var undir áhrifum áfengis, hafði fengið mann sem hann þekkti ekki til að aka fyrir sig bifreiðinni úr miðbænum. Þeir fóru síðan á N1 til að kaupa bensín, en þaðan ók ókunni maðurinn á brott án umráðamanns bifreiðarinnar. 

Bíllinn fannst síðan í Grafarholti tuttugu mínútum síðar og var par sem í bifreiðinni var handtekið og vistað í fangageymslum vegna rannsóknar málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert