Íkveikjan kærð til lögreglu

Athafnasvæði Hringrásar.
Athafnasvæði Hringrásar. Ljósmynd/Hringrás

Íkveikjan á athafnasvæði Hringrásar verður kærð til lögreglunnar í Reykjavík. Þá hefur öryggisgæsla verið hert. Eftirlitsmyndavélum verður fjölgað og myndavélakerfið á svæðinu bætt til muna. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Hringrás.

„Forsvarsmenn Hringrásar funduðu með Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í dag þar sem fram kom að nær öll skilyrði fyrir áframhaldandi starfsleyfi hafi verið uppfyllt, en eftir íkveikjuna á þriðjudagskvöld gerði eftirlitið athugasemdir við að of mikið af efni hafi verið á svæðinu.  Síðasta skilyrðið verður uppfyllt fyrir lok dags.

Hringrás staðfestir að vegna tafa á útskipun annars vegar og uppfærslu á dekkjatætara hins vegar hafi um nokkurra daga skeið verið umfram magn efnis á athafnasvæðinu. Starfsmenn Hringrásar hafa unnið hörðum höndum að því að grynnka á umfram efninu þannig að í öllum flokkum verði magn á svæðinu undir mörkum. Síðasti liður þess verkefnis verður uppfylltur áður en föstudagur er á enda,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að Hringrás hafi óskað eftir fundi með slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu þar sem óskað verður eftir nánara samstarfi. „Rétt er að taka fram að farið var í sérstaka brunahönnun á athafnasvæði Hringrásar fyrir nokkrum misserum og sannaði sú hönnun gildi sitt í íkveikjunni,“ segir í tilkynningunni.

„Hringrás sýnir áhyggjum af staðsetningu fyrirtækisins á núverandi iðnaðarsvæði fullan skilning og er opið fyrir flutningi þess á hentugra svæði. Vonast fyrirtækið eftir góðu samstarfi við borgaryfirvöld og Faxaflóahafnir við að finna hentugri staðsetningu á höfuðborgarsvæðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert