„Starfsemin verður að fara“

Bruni í Hringrás í Klettagörðum.
Bruni í Hringrás í Klettagörðum. mbl.is/Júlíus

„Starfsemin verður að fara. Þetta er fullreynt,“ segir Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Reykjavíkurborgar og formaður umhverfis- og skipulagsráðs, spurður út í starfsemi Hringrásar í Klettagörðum. Hann vísar í fjölmarga bruna sem hafa verið á svæðinu á síðustu árum. Hjálmar tekur í sama streng og borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, um að óæskilegt sé að hafa slíka starfsemi nærri íbúðabyggð. 

Frétt mbl.is: „Þetta er mjög al­var­legt“

Þegar eldur kom upp í Klettagörðum árið 2012 var Hjálmar borgarfulltrúi og formaður stjórnar Faxaflóahafnar sf. Í viðtali við Morgunblaðið 21. júlí 2012 sagði hann: „Miklu æskilegra væri að starfsemin væri í meiri fjarlægð frá íbúðabyggð“. 

Þegar Hjálmar rifjar þetta upp við mbl.is segist hann hafa talið fyrirtækið vera á „alsíðasta snúningi“ á svæðinu árið 2012. 

Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi Reykjavíkurborgar.
Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi Reykjavíkurborgar. Rax / Ragnar Axelsson

Lóðaleigusamningur útrunninn 2012

Í sömu frétt frá árinu 2012 kom fram að lóðaleigusamningur Faxaflóahafna sf. við Hringrás væri útrunninn en fyrirtækið hefði fengið áframhaldandi starfsleyfi. „Ég man ekki nákvæmlega hvernig þetta er. Það eru oft framlengingarákvæði í svona samningum,“ svarar hann spurður nánar út í lóðaleigusamninginn árið 2012. Hann vísar boltanum yfir á Faxaflóahafnir sf. sem geti svarað nánar fyrir þetta. 

Árinu 2012 kemur fram að framtíð starfseminnar væri óljós. Þá átti eftir að fara yfir öryggisatriði á svæðinu. Það sama er upp á teningnum núna. Starf­semin hefur verið stöðvuð þar til farið hefur verið yfir málið. Kallað hefur verið eftir gögn­um frá slökkviliðinu, heil­brigðis­eft­ir­lit­inu og Faxa­flóa­höfn­um sf. sem eiga landið und­ir starf­sem­inni.

Gerir fastlega ráð fyrir breytingu 

Hjálmar á von á að fá skýrslu um málið á næsta fundi umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar. Sá fundur er á miðvikudaginn næsta. „Ég geri fastlega ráð fyrir því,“ segir hann spurður hvort líklegra sé að gripið verði til aðgerða á þessu ári en fyrir fjórum árum, þegar hann var í stjórn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert