„Við finnum lausn á þessu“

Bjarni Benediktsson ræddi við fjölmiðla eftir að hafa fundað með …
Bjarni Benediktsson ræddi við fjölmiðla eftir að hafa fundað með forseta Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hef nú trú á fólki þannig að við finnum lausn á þessu,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann kom af fundi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, á skrifstofu forsetans við Sóleyjargötu í Reykjavík. Forsetinn fundar með forystumönnum flokkanna í dag um stöðuna í stjórnarmyndunartilraunum.

Spurður hvort komið væri þrátefli í stöðuna sagði Bjarni að það væri ekki fjarri því. Aðspurður sagðist hann telja að eðlilegt næsta skref væru viðræður Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar. Frekar ætti að vinna með möguleikann á þriggja flokka stjórn en fimm flokka stjórn eða þjóðstjórn. Það væri hins vegar ekki alfarið undir honum komið.

Bjarni Benediktsson ræðir við fjölmiðla eftir fundinn með forsetanum.
Bjarni Benediktsson ræðir við fjölmiðla eftir fundinn með forsetanum. mbl.is/Hjörtur

Bjarni var einnig spurður að því hvort forsetinn hefði talað um að veita einhverjum forystumanni stjórnarmyndunarumboðið sagði hann að forsetinn hefði ekki talað skýrt um það en væri greinilega að velta því fyrir sér. Spurður hvort forsetinn væri orðinn óþolinmóður sagði Bjarni svo alls ekki vera. „Guðni er mjög raunsær maður.“

Spurður hvaða skilaboð hann hefði farið með inn á fundinn með forsetanum sagði hann þau helst hafa verið þau að skýringar væru á stöðunni sem uppi væri. „Menn hafa verið óraunsæir, menn koma úr kosningabaráttunni í miklum eldmóð með sín stefnu mál efst í huga og velta fyrir sér hvernig megi hrinda því í framkvæmd en eru smám saman að átta sig á því að það er kannski ekki það sem að skiptir mestu til þess að mynda ríkisstjórn.“

Stjórnarmyndun ætti í raun ekki að vera erfið miðað við góða stöðu í efnahagsmálum. Þörf væri á málamiðlunum en það ætti samt ekki að þurfa miklar slíkar þegar kæmi að stefnumálum af þeim sökum. Málið væri að klúðra ekki þeirri góðu stöðu.

Spurður hvort hann væri með því að segja að hugmyndin væri að taka upp þráðinn aftur við VG sagði Bjarni það of mikið sagt en hann væri sem fyrr opinn fyrir öllum möguleikum í þeim efnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert