„Við getum búið til ríkisstjórn“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, ræðir við fjölmiðla eftir fundinn …
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, ræðir við fjölmiðla eftir fundinn með forsetanum í dag. mbl.is/Hjörtur

„Við getum búið til ríkisstjórn, hverjir sem það verða,“ sagði Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, eftir fund með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á forsetaskrifstofunni við Sóleyjargötu í Reykjavík í dag þar sem rætt var um stöðuna í stjórnarmyndunarmálum. Forsetinn hafði áður fundað með forystumönnum annarra stjórnmálaflokka.

Logi hefur kallað eftir því að aftur verði látið reyna á mögulega ríkisstjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar en upp úr þeim viðræðum slitnaði í síðustu viku. Logi sagði þann möguleika ekki hafa verið fullreyndan. 

„Við kannski hættum of snemma fannst mér. Nú verða bara allir þessir fimm að tala við hvern annan og svona leita að einhverjum einhverjum sáttatón til þess að koma aftur að borðinu og klára það verkefni sem við vorum byrjuð á. Ef það verður svo til þess að við náum ekki samkomulagi þá er það þannig en það er alltaf betra bara að gefast upp þegar maður er búinn að gera allt sem að maður getur. Ekki gera það í hálfu farinu,“ sagði Logi.

Spurður hvort hann teldi að það þurfti bara aðeins meiri tíma tók Logi undir það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert