Sló lögreglumann í kynfærin

Embætti héraðssaksóknara hefur ákært karlmann á fimmtugsaldri fyrir að hafa í nóvember 2015 slegið lögreglumann með krepptum hnefa í kynfærin. Lögregla hafði komið á vettvang til að aðstoða sjúkraflutningamenn.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi eystra voru sjúkraflutningamenn kallaðir á heimili í Kópavogi vegna bakverkja eða bakáverka mannsins. Maðurinn, sem er með lögheimili fyrir norðan, var mjög ölvaður þegar sjúkraflutningamenn komu að og reyndi að slá til þeirra. Var lögregla því kölluð á staðinn til að aðstoða sjúkraflutningamennina.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu segir í skýrslu lögreglumannsins að hann hafi ekki séð ástæðu til að leita sér aðhlynningar á sjúkrahúsi eftir atvikið.

Maðurinn er ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni og fer héraðssaksóknari fram á að hann verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar, að því er fram kemur í ákæru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert