Tveir með augastað á tré

Darri Ásbjörnsson og Rüdiger Þór Seidenfaden skarta tréslaufum og gleraugum …
Darri Ásbjörnsson og Rüdiger Þór Seidenfaden skarta tréslaufum og gleraugum með tréumgjörðum.

Fuglar og krúttlegir litlir englar úr tré hafa hreiðrað um sig í elstu gleraugnaverslun landsins á Laugaveginum. Herraþverslaufur úr tré taka einnig rými innan um og saman við gleraugnaumgjarðir af ýmsu tagi – líka úr tré. Sjóntækjafræðingarnir Rüdiger Þór Seidenfaden og Darri Ásbjörnsson segja varninginn ríma hvort tveggja við vistvænan lífstíl og fagurfræði.

Kannski líður ekki á löngu þar til við sitjum hér og tálgum sjálfir úr tré,“ segja sjóntækjafræðingarnir Rüdiger Þór Seidenfaden og Darri Ásbjörnsson í gríni þar sem þeir standa vaktina í Gleraugnasölunni 65 við Laugaveginn. Upp á síðkastið hefur vakið athygli margra hversu tré er orðið fyrirferðarmikið í þessari elstu gleraugnasölu landsins. Ekki aðeins eru þar gleraugnaumgjarðir úr tré heldur líka fuglar og krúttlegir englar, að ótöldu nýstárlegasta fyrirbærinu; herraslaufum úr tré.

Í stíl við stemninguna í búðinni skarta þeir félagar vitaskuld gleraugum með tréumgjörðum og þverslaufum úr tré. Trévarningurinn er þó hálfgerð aukabúgrein, því þeir hafa ærinn starfa alla daga við að mæla sjón viðskiptavina sinna og aðstoða þá við val á gleraugum og umgjörðum. Að sögn eigandans, Rüdiger Þórs, á vöruúrvalið rætur að rekja til áhuga hans á skógrækt og vistvænum lífsstíl. „Ég er mikill áhugamaður um alls konar handverk úr tré,“ segir hann. Darri deilir áhuganum með kollega sínum og kveðst hafa dálæti á fögrum hlutum sem eru hannaðir af útsjónarsemi og úr vönduðum efnivið.

Lífstíll með trjám

„Áhugi minn á náttúrulegum efnum varð til þess að ég tryggði mér einkaleyfi á tréumgjörðum á gleraugnasýningu í Þýskalandi fyrir um tveimur árum. Þær eru handsmíðaðar í litlu fjallaþorpi í Suður-Týrol, afar vandaðar, fisléttar, þjálar og þægilegar og eiga auknum vinsældum að fagna. Fyrir utan vini mína í skógræktinni eru Íslendingar þó ekki enn eins ginnkeyptir fyrir þeim og bandarískir og kanadískir túristar sem kaupa þær í stórum stíl. Umgjarðirnar eru úr margs konar viði; aski, hnotu, kirsuberja- og kastaníuviði svo fátt eitt sé talið, og fást í mörgum gerðum,“ segir Rüdiger Þór og nefnir líka þann kost að tré sé ekki ofnæmisvaki eins og sumir málmar.

Hann telur ekki loku fyrir það skotið að verðið standi í sumum, enda séu umgjarðirnar lúxusvara, sem hann hafi skuldbundið sig til að selja á uppsettu verði framleiðandans. „Tilfinningin að setja upp umgjörð úr náttúrulegu efni eins og tré er engri lík,“ segir Rüdiger Þór. Darri tekur í sama streng og bætir við að viðskiptavinir sem reynt hafi séu sama sinnis. „Þetta er lífstíll,“ ítrekar Rüdiger Þór, sem ólst upp í návígi við græna skóga.

Ástríðufullur skógræktandi

„Þótt mér þætti Ísland paradís á jörðu þegar ég fluttist hingað fyrir 35 árum, saknaði ég trjánna og skóganna heima. Frá því okkur hjónum bauðst smáskiki í Fljótshlíð, þaðan sem konan mín er ættuð, hef ég verið ástríðufullur skógræktandi. Skógræktarstjórinn á Tumastöðum, sem er þarna í grenndinni, greip bara um höfuðið og spurði hvort ég væri alveg bilaður þegar ég sagði að mig langaði til að græða landið, þar sem áður var árfarvegur Markarfljóts, upp með trjám. Ég hófst engu að síður handa við uppgræðsluna árið 1989 og nú er allt orðið skógi vaxið þar sem áður var svartur sandur. Hæstu trén eru allt að 15 metrar, heill frumskógur,“ segir Rüdiger Þór.

Sjóntækjafræðingurinn og verslunareigandinn er kominn langt inn í skóginn í Fljótshlíðinni. Förum aftur með honum á Laugaveginn og skoðum hluta af afurðum skóganna í útlöndum.

Englaráp fyrir jólin

„Eitt leiddi af öðru,“ segir Rüdiger Þór. „Til að undirstrika að umgjarðirnar væru úr tré, keyptum við í sumar nokkra handgerða tréfugla sem við stilltum út í glugga með umgjörðunum. Sárafátækir bændur í Mansjúríu tálga og mála þessa fugla, sem ég flyt inn frá Svíþjóð. Þeir hafa vakið óskipta athygli vegfarenda, sérstaklega túrista, sem kíkja inn þótt þá vanti ekki gleraugu.

Rüdiger Þór segist njóta leiðsagnar mágs síns, sem er fuglafræðingur, við innkaupin. Í ljósi vaxandi túrisma ráðlagði hann honum að kaupa einungis íslenska fugla. Og nú sitja maríuerla, starri, svartþröstur, tjaldur og nokkrir fleiri fuglar keikir út um allt í versluninni.

En þar er líka heilmikið englaráp því fyrst hann var á annað borð farinn að flytja inn trévörur fannst honum upplagt að bjóða upp á litla, engla eins og hann þekkti frá æsku sinni. „Í Þýskalandi er mikil hefð fyrir handunnum jólaenglum úr tré, sem ganga á milli kynslóða og verða með tímanum verðmætir safngripir. Fortíðarþráin gerði vart við sig og ég ákvað að bæta þeim í vöruúrvalið,“ segir Rüdiger Þór.

Svona í lokin er þeirri spurningu beint til bæði hans og Darra hvort ekki sé óþægilegt að vera með tré um hálsinn. „Þvert á móti því slaufan er fest með frönskum rennilás undir kragann. Og er sérlega hentug fyrir þá sem aldrei hafa komist upp á lag með að binda slaufur,“ svara þeir.

Tjaldur og fleiri íslenskir fuglar hafa hreiðrað um sig í …
Tjaldur og fleiri íslenskir fuglar hafa hreiðrað um sig í búðinni hjá þeim Rudiger Þór og Darra.
Gleraugnaumgjarðir úr tré þykja þjálar og þægilegar og fást úr …
Gleraugnaumgjarðir úr tré þykja þjálar og þægilegar og fást úr mörgum viðartegundum.
Hentugt hálstau fyrir þá sem ekki hafa komist upp á …
Hentugt hálstau fyrir þá sem ekki hafa komist upp á lag með að binda slaufur.
Englar úr tré ganga oft milli kynslóða og eru sumir …
Englar úr tré ganga oft milli kynslóða og eru sumir orðnir verðmætir safngripir.
Svartþröstur og fleiri íslenskir fuglar hafa hreiðrað um sig í …
Svartþröstur og fleiri íslenskir fuglar hafa hreiðrað um sig í búðinni hjá þeim Rudiger Þór og Darra.
Gleraugnaumgjarðir úr tré þykja þjálar og þægilegar og fást úr …
Gleraugnaumgjarðir úr tré þykja þjálar og þægilegar og fást úr mörgum viðartegundum.
Englar úr tré ganga oft milli kynslóða og eru sumir …
Englar úr tré ganga oft milli kynslóða og eru sumir orðnir verðmætir safngripir.
Hentugt hálstau fyrir þá sem ekki hafa komist upp á …
Hentugt hálstau fyrir þá sem ekki hafa komist upp á lag með að binda slaufur.
Englar úr tré ganga oft milli kynslóða og eru sumir …
Englar úr tré ganga oft milli kynslóða og eru sumir orðnir verðmætir safngripir.
Gleraugnaumgjarðir úr tré þykja þjálar og þægilegar og fást úr …
Gleraugnaumgjarðir úr tré þykja þjálar og þægilegar og fást úr mörgum viðartegundum.
Hentugt hálstau fyrir þá sem ekki hafa komist upp á …
Hentugt hálstau fyrir þá sem ekki hafa komist upp á lag með að binda slaufur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert