Hafnar kröfu Útvarps Sögu

Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur hafnað kröfu Útvarps Sögu um frestun réttaráhrifa ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar.

Með þeirri ákvörðun synjaði Póst- og fjarskiptastofnun umsókn Útvarps Sögu um úthlutun á aukatíðni fyrir höfuðborgarsvæðið og lagði fyrir stöðina að hætta notkun á tíðninni 102,1 MHz þar sem tímabundin heimild til prófana á tíðninni er löngu útrunnin, að því er kemur fram í tilkynningu.

Í forsendum úrskurðarnefndar kemur fram að hin kærða ákvörðun hafi ekki í för með sér að útsendingar kæranda muni stöðvast. Um óbreytta starfsemi verður að ræða frá því sem var áður en þetta mál hófst.

Póst- og fjarskiptastofnun getur því  framfylgt ákvörðun sinni og gripið til viðeigandi aðgerða til þess að stöðva óheimila notkun á tíðninni 102,1 MHz. Málið mun síðan fá hefðbundna meðferð hjá úrskurðarnefndinni þar sem fjallað verður um efnishlið málsins.

Í tilkynningunni áréttar Póst- og fjarskiptastofnun að Útvarpi Sögu hafi staðið til boða að fá tíðnina 102,1 MHz gegn því að skila inn tíðninni 99,4 MHz og stendur það boð enn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert